Miðasala hafin!

25-09-06 14:00
Miðasala á Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík hófst kl. 14:00. Miðasala fer fram hér á vefnum. Skoðaðu þig um, veldu þér mynd og smelltu á ‘Kaupa miða á sýningu’. Miðasala fer fram með miðasölukerfi mida.is.Miðasala fer einnig fram á Thorvaldsen Bar milli kl. 11:00 og 19:00 alla daga. Frá og með fimmtudeginum 28. september verða einnig seldir miðar í Háskólabíói, Tjarnarbíói og Iðnó.

Auk stakra miða á einstaka sýningar eru seld sex-mynda klippikort á 3000 krónur, og hátíðarpassar á 6000 krónur sem gilda fyrir einn á allar almennar sýningar hátíðarinnar.

Þá eru einnig til sölu miðar á sérstaka viðburði, svo sem kvikmyndatónleika með Benna Hemm Hemm, plötusnúðakvöld með Thomas Bangalter úr Daft Punk, auk masterklassa með Aleksandr Sokurov, Atom Egoyan, Goran Paskaljevic og fleirum.

Upplýsingamiðstöð Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar er starfrækt á Thorvaldsen Bar, Austurstræti 8. Þar er hægt að kaupa og fá afhentar allar þrjár miðagerðirnar. Þeir sem hafa greitt fyrir passa eða afsláttarkort á Netinu nálgast þau á Thorvaldsen. Stakir miðar eru einnig afhentir gegn framvísun staðfestingar í bíóhúsunum þremur: Háskólabíói, Tjarnarbíói og Iðnó.

Það er nýnæmi á Íslandi að hægt sé að kaupa bíómiða á Netinu. Hátíðin leggur áherslu á að þetta sé valkostur, því sýningar hátíðarinnar eru alls um 230 talsins þá ellefu daga sem hátíðin stendur yfir. Því er mikilvægt að skipuleggja sig vel, skoða dagskrána vel, velja það sem manni þykir áhugaverðast og panta miða. Fólk er minnt á að sækja miðana með fyrirvara til að koma í veg fyrir biðraðir í bíóhúsunum.

Í nær öllum tilfellum eru þessir ellefu dagar eina tækifærið sem býðst til að sjá þessar myndir hér á landi. Þær munu ekki fara í almennar bíósýningar né koma út á mynddiski.