35mm sýningarvél í Tjarnarbíói

22-09-06 15:58
Alþjóðleg Kvikmyndahátíð í Reykjavík hefur fest kaup á mjög fullkominni tölvustýrðri 35mm kvikmyndasýningarvél, sem sett hefur verið upp í Tjarnarbíói.Með tilkomu þessarar sýningarvélar opnast í fyrsta sinn í langan tíma sá möguleiki að halda úti árið um kring reglulegum kvikmyndasýningum utan hinna hefðbundnu kvikmyndahúsa; sýna kvikmyndir sjálfstæðra framleiðenda, kvikmyndir frá öðrum heimshlutum sem ógjarnan rata inn í íslensk kvikmyndahús að öðrum kosti; og gera Tjarnarbíó að miðstöð framsækinnar kvikmyndalistar á Íslandi þar sem árlega yrði haldin vegleg Alþjóðleg kvikmyndahátíð eins og nú er haldin í þriðja sinn í Reykjavík.
Vonir stjórnenda Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar um framtíðarstað í Tjarnarbíói byggjast á því að húsið verði tekið í gegn og endurnýjað og yrði þetta samstarfsverkefni Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar og Sjálfstæðu leikhúsanna. Þegar hafa verið unnar tillögur um breytingar á húsnæðinu sem gera ráð fyrir að í Tjarnarbíói verði gengið þannig frá salnum að hann nýtist jafn vel til kvikmynda- og leiksýninga.

Nýja sýningavélin er framleidd af hinni þekktu þýsku Kinoton verksmiðjunni í München sem stofnuð var árið 1948. Kinoton er leiðandi á þessu sviði og hlaut m.a. Óskarsverðlauni fyrir tækninýjung í kvikmyndaiðnaði en Kinoton kom fyrst fram með þá aðferð að spila kvikmyndir af stórum diskum sem eru þeirrar gerðar að aldrei þarf að spóla myndirnar tilbaka.

Með vélinni er hægt að sýna kvikmyndir með bæði Dolby og THX hljóðrásum. Vélin er útbúin með nýjustu gerð af myndfærslu þannig að kvikmyndin verður stöðugri á sýningartjaldinu.

Kvikmyndasýningavélin kostar uppsett kr. 4.000.000, fjórar milljónir króna.