Átján íslenskar stuttmyndir frumsýndar á RIFF 2016

Alls verða átján íslenskar stuttmyndir sýndar á RIFF í ár. Um sérstaklega spennandi myndir er að ræða á hátíðinni í ár og eru viðfangsefni íslensku kvikmyndagerðarmannanna afar fjölbreytt. Meðal annars er fjallað um vináttu, foreldrahlutverkið, líf án tækni, íslenska sjóbrettakappa og réttir á Íslandi. Frumsýndar íslenskar stuttmyndir á RIFF í ár verða:

Aleinn? (Ísland) – Ísak Hinriksson
Bestu vinkonur að eilí­fu (Ísland) – Katrín Björgvinsdóttir
Helga (Ísland) – Tinna Hrafnsdóttir
Léa (Ísland/Bandaríkin) – Connor Simpson
Litla stund hjá Hansa (Ísland) – Eyþór Jóvinsson
Ungar (Ísland) – Nanna Kristín Magnúsdóttir
Fótspor (Ísland) – Hannes Þór Arason
The Macaron Man (Ísland) – Smári Gunnarsson
Nátthrafnar (Ísland) – Sturla Óskarsson
Revolve (Ísland/Bretland) – Ka Ki Wong
The Accord (Ísland) – RC Cone
Bróðir (Ísland/Skotland) – Alasdair Bayne
Heimakær (Ísland) – Katrín Bragadóttir
Þúsund haust (Ísland/Bandaríkin) – Bob Krist
Ljósöld (Ísland) – Guðmundur Garðarsson
Grýla (Ísland) – Tómas Heiðar Jóhannesson
I Can’t Be Seen Like This (Ísland) – Anna Gunndís
Apology (Ísland) – Rúnar Ingi Einarsson

Íslenskar stuttmyndir hafa frá upphafi RIFF verið með allra vinsælasta efni á dagskrá hátíðarinnar og selst jafnan hratt upp á sýningar á þessum vaxtarsprotum íslenskrar kvikmyndagerðar. Valið hefur verið úr innsendum stuttmyndum íslenskra kvikmyndagerðarmanna og hafa átján myndir verið valdar til þátttöku á RIFF í ár, bæði leiknar myndir og heimildamyndir. Um frumsýningu hérlendis er að ræða á öllum myndunum og verða þær sýndar í þremur lotum í Bíó Paradís á hátíðinni.

Í kjölfar hátíðarinnar verða valdar myndir úr þessum flokki kynntar á alþjóðavísu af RIFF, m.a. á La Cinémathéque Francaise í París, en margir þeirra íslensku leikstjóra sem frumsýnt hafa stuttmyndir sínar á hátíðinni hafa síðan náð langt í heimi kvikmyndanna. Dómnefnd velur ennfremur bestu myndina úr flokki leikinna mynda og hlýtur leikstjóri hennar viðurkenningu kennda við Thor Vilhjálmsson.

Þá verður ennfremur sérstök sýning á elliheimilinu Grund á stuttmyndininni Heiti potturinn eftir Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur, sem frumsýnd var á Skjaldborgarhátíðinni fyrr á árinu.