Atom Egoyan gestur hátíðarinnar

17-09-06 10:48;
Kanadíski kvikmyndaleikstjórinn Atom Egoyan er gestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Hann mun veita sérstökum verðlaunum viðtöku fyrir framúrskarandi sköpunarhæfileika á sviði kvikmyndanna. Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson veitir verðlaunin við hátíðlega athöfn að Bessastöðum 3. október. Þrjár mynda hans verða sýndar í tilefni af heimsókninni. Þá mun Egoyan standa að „masterklassa“ miðvikudaginn 4. október.Atom Egoyan fæddist 19. júlí 1960 í Egyptalandi en fluttist snemma til Kanada. Hann er af armensku bergi brotinn. Myndir hans fjalla oftar en ekki um firringu og einangrun sem afleiðingu nútímatækni, skriffinnsku og annara þátta sem móta samfélag dagsins í dag. Hann er þekktur fyrir að leika sér með framvindu sögunnar og brjóta línulega byggingu á bak aftur. Egoyan hlaut nokkra athygli fyrir myndina Exotica (1994) og fyrir kvikmyndina The Sweet Hereafter (1997) var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna. Myndin Ararat (2002) vakti einnig athygli þar sem hún var fyrsta bíómyndin til þess að fjalla um þjóðarmorð á Armenum.

Í tilefni af komu Egoyans sýnir Alþjóðleg kvikmyndahátíð þrjár mynda Egoyans: The Adjuster(1991), Exotica (1994) og The Sweet Hereafter (1997).

The Adjuster segir af tjónamatsmanninum Noah og sérkennilegum fjölskylduhögum hans, en hann býr í sýningarhúsi með konu sinni, sem starfar við að ritskoða klámmyndir, og syni.

Exotica segir af plötusnúðnum Eric sem heimsækir reglulega strípistaðinn Exotica þar sem fyrrverandi kærasta hans kemur fram. Myndin fjallar um fleiri viðskiptavini staðarins og líf þeirra þar fyrir utan.

The Sweet Hereafter segir frá því hvernig rútuslys þar sem flest börn bæjarins látast skekur samfélagið. Lögfræðingur nýtir sér ástandið og hvetur foreldrana til þess að fara í mál við alla sem gætu átt hlut að slysinu.

Þá má benda á að nýjasta mynd Egoyans, Where the Truth Lies, er sýnd í Háskólabíói til 21. september.