Benni Hemm Hemm með tónleika

01-09-06 10:42
4. og 5. október mun sautján manna hljómsveitin Benni Hemm Hemm flytja nýja, frumsamda tónlist við kvikmyndina Fjalla-Eyvind. Tónleikarnir fara fram í Tjarnarbíói.Benni Hemm Hemm var valin „bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaunum í fyrra. Fyrsta plata sveitarinnar var einnig útnefnd besta plata ársins í flokknum ýmist tónlist. Þess fyrir utan var hún ofarlega á árslitum flestra tónlistargagnrýnenda í lok síðasta árs, var vinsæl í útvarpi og seldist vel. Platan kom út í Japan snemma á þessu ári, og er nýkomin út í Evrópu og Bandaríkjunum. Von er á annarri plötu Benna Hemm Hemm hér á landi fyrir lok ársins.

Kvikmyndin Fjalla-Eyvindur eða Berg-Ejvind och hans hustru eins og hún heitir á frummálinu er sænsk mynd frá árinu 1918. Leikstjóri er Victor Sjöström, einn virtasti leikstjóri Svía frá upphafi. Myndin gerist á Íslandi og byggir á leikriti Jóhanns Sigurjónssonar, Fjalla-Eyvindi. Þar segir frá Höllu og Eyvindi. Eyvindur er fátækur og hefur þurft að sjá sér farborða með því að stela. Þegar hann kemur að vinna á bænum þar sem Halla býr verða þau ástfangin. Heimilisfólkið ber að lokum kennsl á Eyvind sem er þekktur sem þjófur, og þá flýja Eyvindur og Halla í sameiningu upp til fjallanna.

Ljóst er að hér er um einstakan menningarviðburð að ræða, þar sem Fjalla-Eyvindur Jóhanns Sigurjónssonar var fyrsta íslenska leikritið sem náði hylli utan landsteinanna. Hér rennur því sköpunarkraftur nýrra og liðinna tíma saman á skemmtilegan og frumlegan máta.