Besta heimagerða heimildarmyndin?

14-08-06 14:22
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík efnir til samkeppni um bestu heimagerðu heimildarmyndina í samvinnu við Apple IMC. Öllum landsmönnum er frjálst að taka þátt.Með nýrri tækni hafa tækifæri fólks til þess að útbúa kvikmyndir heima við margfaldast. Kvikmyndatökuvélar verða sífellt betri og ódýrari, og hugbúnaður á borð við iMovie frá Apple gerir almenningi kleift að klippa myndbönd heima hjá sér. Hátíðin hvetur því fólk til þess að finna kvikmyndagerðarmanninn í sjálfu sér og taka þátt í spennandi og skemmtilegri keppni.

• Umfjöllunarefni eða yfirskrift myndarinnar skal vera „fjölskyldan mín.“ Fólki er í sjálfsvald sett hvernig efnistökum er háttað.
• Myndin skal ekki vera lengri en tíu mínútur.
• Myndin skal klippt með iMovie hugbúnaðinum frá Apple. Hafi fólk ekki aðgang að hugbúnaðinum býðst því aðstaða til eftirvinnslu hjá Apple IMC á Íslandi.
• Myndum skal skilað á DVD-diski fyrir 15. september nk.

Dómefnd skipuð Ilmi Kristjánsdóttur leikkonu (Stelpurnar), Árna Ólafi Ásgeirssyni leikstjóra (Blóðbönd) og Bjarka Guðjónssyni, fulltrúa Apple IMC, mun velja bestu myndirnar. Þær verða síðan sýndar á fjölskyldudegi kvikmyndahátíðarinnar, 8. október. Ein myndanna hlýtur verðlaun sem besta heimagerða heimildarmyndin. Í verðlaun er MacBook fartölva frá Apple.

Apple mun bjóða upp á ókeypis námskeið í notkun iMovie í tengslum við keppnina. Fyrsta námskeiðið fer fram föstudaginn 18. ágúst kl. 16:00 hjá Apple IMC á Íslandi, Laugavegi 182. Námskeiðin munu síðan halda áfram á hverjum laugardegi fram til 9. september.

Myndunum skal skilað í lokuðu umslagi til:

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík
„Fjölskyldudagur“
Kirkjutorgi 4
101 Reykjavík