Borgin myrkvuð!

18-08-06 15:07
Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í gær (fimmtudag) erindi Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík um myrkvun borgarinnar. Það er því ljóst að á opnunarkvöldi hátíðarinnar 28. september verða öll götuljós í Reykjavík slökkt frá kl. 22:00 – 22:30.Við þekkjum öll viðbrigðin sem verða á himintjaldinu þegar við vindum okkur út fyrir borgarmörkin og horfum til himins. Himinfestingin lifnar bókstaflega við. Þúsundir stjarna og dansandi norðurljós birtast þar sem áður virtist ekkert vera. Þessi kvikmynd í boði náttúrunnar er engu síðri en þær myndir sem vinna til verðlauna á kvikmyndahátíðum víða um heim, og enn magnaðri því hvergi er að finna jafnstórt sýningartjald og himininn sjálfan.

Fjöldi borgarbúa fer á mis við þetta mikla sjónarspil sökum ljósmengunar, og því myndum við vilja hefja hátíðina í haust með því að slökkva öll götuljós í borginni og bjóða Reykvíkingum að horfa til himins og uppgötva fegurðina sem þar býr. Einnig má líta á þetta sem almannavarnaræfingu, því ljósin geta vitaskuld slökknað hvenær sem er, og þá er mikilvægt að borgarbúar séu viðbúnir, þekki aðstæður og geti haldið ró sinni.

Til þess að koma í veg fyrir óhöpp á meðan á myrkvanum stendur verður myrkvinn kynntur rækilega í fjölmiðlum svo ekki fari framhjá neinum hvað standi til.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hvetur borgarbúa og fyrirtæki til þess að taka þátt í þessum einstaka viðburði og slökkva ljósin heima fyrir og á vinnustöðum. Þannig verður ljósmengunin sem minnst og fegurð himinsins sem mest.