Brontis í stað Alejandro

Síleski leikstjórinn Alejandro Jodorowsky mun því miður ekki vera viðstaddur RIFF í ár, líkt og vonir stóðu til.

Jodorowski er heiðursleikstjóri RIFF í ár en hann hefur á fjölbreyttum ferli sínum leikstýrt leikritum, skrifað teiknimyndasögur, ljóð og skáldsögur – og einnig orðið einskonar “síkómagískur” gúrú. Þó er hann auðvitað þekktastur fyrir framlag sitt til kvikmyndalistarinnar en hann er undir sterkum áhrifum frá súrrealískri list, austurlenskum spíritisma, vestrænni sækadelíu, grótesku myndmáli, hinu yfirnáttúrulega og hinu dulræna.

Jodorowsky átti því miður ekki heimangengt á hátíðina af heilsufarsástæðum, en sonur hans, Brontis Jodorowsky, kemur í hans stað.  Hann hefur unnið mikið með föður sínum og lék meðal annars í myndinni El Topo frá árinu 1970. Brontis heldur meistaraspjall í tengslum við sýningar á nýjustu myndum föður síns; Endless Poetry og Dance of Reality. Þær eru fyrstu myndirnar í fimm mynda seríu sem hann hyggst gera með kvikmyndaendurminningum sem byggja á ævi hans.

Meistaraspjall Brontis Jodorowsky fer fram þann 1. október í Norræna húsinu. Viðburðurinn hefst klukkan 17.00 og er aðgangur ókeypis.