Chloë Sevigny verður heiðursgestur á RIFF í ár

Bandaríska leikkonan Chloë Sevigny verður heiðursgestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF, í ár en hátíðin verður sett þann 29. september næstkomandi í þrettánda sinn. Stuttmynd Sevigny, Kitty, verður ennfremur sýnd á hátíðinni en myndin var lokamynd kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í ár. Ásamt henni verða Darren Aronovsky og Deepa Metha heiðursgestir RIFF í ár. Einnig verður sérstöku kastljósi beint á verk leikstjórans Alejandro Jodorowsky.

Chloë Sevigny er er fædd árið 1974 og öðlaðist frægð á unglingsárunum eftir að hafa verið uppgötvuð á götu í New York, svo mikla að um hana var skrifuð 7 blaðsíðna grein í tímaritinu The New Yorker og hún þar nefnd “ein svalasta stelpa í heimi”. Í kjölfarið fylgdu ýmsar bíómyndir, fyrst hin umdeilda en virta kvikmynd Kids árið 1995 og síðar Óskarsverðlaunamyndin Boys Don´t Cry, en Sevigny var tilnefnd til bæði Óskarsverðlaunanna og Golden Globe-verðlaunanna fyrir leik sinn í henni. Hún vann síðar til Golden Globe-verðlaunanna sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í þáttaröðinni Big Love.

riff-2016 - Kitty - Still hi-res [276979]

 

Af nýlegum verkefnum hennar má nefna sjónvarpsþáttinn American Horror Story: Hotel sem hún lék í ásamt Lady Gaga, hina vinsælu Netflix-seríu Bloodline og Jane Austen-myndina Love and friendship, sem kom út fyrr á árinu. Sevigny þykir mikið tískutákn og hefur starfað bæði sem fatahönnuður og fyrirsæta. Þá hefur hún oft verið titluð “indie-drottningin” vegna þess fjölda óháðra kvikmynda sem hún hefur leikið í. Hún hefur ennfremur átt frumkvæði að umræðu um feminisma í kvikmyndagerð og stöðluð kynjahlutverk í Hollywood.

Stuttmyndin Kitty er frumraun Sevigny í leikstjórnarstólnum en hún segir frá stúlku sem dreymir um að umbreytast í kettling. Stuttmyndin mun keppa til verðlauna á RIFF í flokki erlendra stuttmynda, en þetta er í fyrsta sinn sem RIFF veitir verðlaun í þeim flokki. Sevigny verður viðstödd sýninguna á mynd sinni í október og mun svara spurningum gesta að henni lokinni.