DANSKUR FÓKUS Á RIFF

Sérstakur fókus verður settur á danska kvikmyndagerð á RIFF-hátíðinni í ár. Staðfestar hafa verið 8 nýjar myndir frá Danmörku sem sýndar verða á hátíðinni meðal annars nýjustu verk Susanne Bier og Bille August. Þá verður staðið fyrir umræðum um gróskuna í danskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð en Danir hafa verið leiðandi á því sviði á Norðurlöndum undanfarin misseri

Myndirnar sem sýndar verða eru:

EN CHANCE TIL / ANNAÐ TÆKIFÆRI

Leikstjóri: Susanne Bier

Syrgjandi lögreglumaður laumast til að skipta út nýlátnu barni sínu fyrir ungabarn sem býr við vanrækslu í eiturlyfjagreni. Annað tækifæri’ reynir á tilfinningar áhorfenda frá upphafi til enda og varpar fram siðferðilegum vangaveltum um fordóma fólks þar sem fátækt og forréttindi mætast. Grípandi sálfræðidrama úr smiðju heiðursverðlaunahafa RIFF, Susanne Bier.


KRIGEN / STRÍÐIÐ

Leikstjóri: Tobias Lindholm

Liðsforinginn Claus og hans menn sinna gæslu í afgönsku héraði. Á meðan reynir eiginkona Claus, Maria, að reka heimili með þremur börnum sem sakna öll pabba síns. Þegar hermennirnir lenda í miðri skothríð tekur Claus afdrifaríka ákvörðun. Leikstjórinn Lindholm skrifaði m.a handritið að ‘Jagten,’ ‘Submarino’ og þáttaröðinni ‘Borgen’.

 

GULDKYSTEN / GULLSTRÖNDIN

Leikstjóri: Daniel Dencik

Árið er 1836. Wulff flytur frá unnustu sinni í Danmörku til dönsku Gíneu (nú Ghana) þar sem hann hyggst rækta kaffi. En þar bíður hans ekki sú paradís sem hann hafði vonast eftir heldur blasir við honum ókunnugur heimur grimmilegs þrælahalds og hörku. Brátt neyðist Wulff til að taka siðferðislega afstöðu.

 

I DINE HÆNDER / Í ÞÍNUM HÖNDUM

Leikstjóri: Samanou Acheche Sahlstrøm

Hjúkrunarfræðingurinn María kemur í veg fyrir sjálfsvíg langveiks manns, Níels, en hann þjáist af ólæknanlegum taugasjúkdómi. Saman halda þau í örlagaríka ferð til Sviss þar sem líknardráp er löglegt í einhverjum tilfellum og kynnast sjálfum sér og hvoru öðru upp á nýtt. Valin besta norræna kvikmyndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg.

 

LANG HISTORIE KORT / LANGA SÖGU STUTTA

Leikstjóri: May el-Toukhy

Á þremur árum kemur sami vinahópurinn saman í átta veislum: Á gamlárskvöld, í innflutningspartíi, Jónsmessugleði, brúðkaupi, óvæntri veislu, nafnaveislu, brúðkaupsafmæli og í afmæli. Vinirnir eru í kringum fertugt og þurfa að endurskoða glanshugmyndir sínar um ástina og rómantík. Loksins hafa Danir eignast sína ‘Fjögur brúðkaup og jarðarför!’

 

MÆND OG HØNS / MENN OG HÆNSN

Leikstjóri: Anders Thomas Jensen

Gabriel er útbrunninn háskólaprófessor, en bróðir hans Elias hefur ólíkt honum aðeins áhuga á konum og tilgangslausum fróðleik. Þegar faðir þeirra deyr finnst myndband þar sem hann tilkynnir þeim að hann sé ekki líffræðilegur faðir þeirra. Bræðurnir halda þá til eyjarinnar Ork til að vitja skrautlegrar blóðfjölskyldu sinnar. Ný kolsvört gamanmynd frá leikstjóra ‘Adams æbler.’

 

ROSITA / ROSITA

Leikstjóri: Frederikke Aspöck

Ulrik er miðaldra ekkill sem langar að finna sér konu. Hann fær því hina fallegu filippeysku Rositu til að koma til Danmerkur og biður son sinn Johannes um að gerast túlkur fyrir sig. Smám saman fara Rosita og Johannes hins vegar að dragast hvort að öðru. Myndin hlaut verðlaun fyrir leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Moskvu.

 

STILLE HJERTE / ÞÖGLA HJARTA

Leikstjóri: Bille August

Þrír ættliðir koma saman yfir helgi til að kveðja ættmóðurina Esther, sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi. Með aðstoð eiginmanns síns, Poul, ætlar hún að kveðja þennan heim að helginni lokinni. En þegar kveðjustundin nálgast verður ákvörðunin erfiðari og átakanlegri þegar óuppgerð mál leita upp á yfirborðið. Myndin sópaði til sín verðlaunum á dönsku kvikmyndaverðlaununum Bodil.