Deepa Metha heiðursgestur á RIFF 2016

Deepa Metha er heiðursgestur RIFF í ár og mun heiðra hátíðina með komu sinni til landsins. Mehta er einn virtasti handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi okkar tíma og mun hún taka við heiðursverðlaunum RIFF fyrir æviframlag sitt til kvikmyndagerðar. Þrjár kvikmyndir hennar verða sýndar á hátíðinni auk þess sem hún heldur masterclass í Norræna húsinu í október þar sem hún ræðir kvikmyndaleikstjórn og aðferðir sínar í kvikmyndagerð.

Nýjasta kvikmynd hennar, The Anatomy of Violence, kemur sjóðheit frá kvikmyndahátíðinni í Toronto á RIFF í ár, en kvikmyndin verður heimsfrumsýnd þar nú í september og er því um Evrópufrumsýningu að ræða á kvikmyndinni á RIFF. Mehta rannsakar í þessari nýju mynd fullri af tilfinningaþrunginni reiði einn alræmdasta glæp sem framinn hefur verið á Indlandi, hina hrottalegu hópnauðgun og morð á 23 ára gamalli konu í strætisvagni í Nýju Delhi árið 2012 sem vakti óhug um allan heim. Myndin blandar saman staðreyndum og skáldskap, en ellefu leikarar spinna þar aðstæður nauðgaranna sex í samvinnu við Metha.

riff-2016-anatomy-of-violence-still-hi-res-288358

Einnig verða kvikmyndirnar Midnight’s Children frá árinu 2012 og Beeba Boys frá árinu 2015 úr hennar smiðju sýndar á hátíðinni, en íslenski tónlistarmaðurinn Biggi Hilmars, sem kenndur var við hljómsveitina Ampop, samdi tónlistina í síðarnefndu myndinni.

Kvikmyndir Metha þykja stórbrotnar, tilfinningaþrungnar og djúpar og hafa verið sýndar á öllum helstu kvikmyndahátíðum heims og hvarvetna sópað að sér verðlaunum. Metha er meðal annars þekkt fyrir þríleik sinn um frumöflin; kvikmyndirnar Eldur, Jörð og Vatn sem  komu út á árunum 1996-2005, en sú síðastnefnda var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í flokki erlendra kvikmynda. Hún er fædd í Indlandi en fluttist síðar til Kanada og starfar nú þar. Flestar kvikmynda hennar tengjast Indlandi á einn eða annan hátt og hafa margir af þekktustu leikurum Indlands leikið í kvikmyndum hennar.

Það er RIFF sannur heiður að bjóða hina virtu Deepa Metha velkomna á hátíðina.