Ellefu keppa um Gullna lundann

Eldri borgarar með elliglöp og skilríki á svörum markaði, hugarfangelsið sem getur fylgt frelsinu og undirheimar eiturlyfjasala
Ellefu nýjir leikstjórar keppa um Gullna lundann í Vitrunum

Í Vitrunum / New Visions tefla ellefu nýir leikstjórar fram sinni fyrstu eða annarri mynd og keppa um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Þessar myndir ögra viðteknum gildum í kvikmyndagerð og vísa veg kvikmyndalistarinnar til framtíðar.

All the Beauty verður heimsfrumsýnd á RIFF og Wùlu Evrópufrumsýnd. Einnig er um Norðurlandafrumsýningu á myndunum Park, Worldly Girl, Oscuro Animal, Godless, Personal Affairs, The Giant, Still Life og Quit Staring at My Plate að ræða.

 

All the Beauty (NOR) – Aasne Vaa Greibrokk

Allt hið fagra / Alt det vakre

Tíu árum eftir erfið sambandsslit heimsækir Sarah David í sumarbústaðinn hans. Hann vill að hún hjálpi sér að ljúka við að skrifa leikrit. Hún kemst að því að leikritið fjallar um samband þeirra og vill að hann hætti við. Í áratugi tóku þau á taugar hvors annars, en þrátt fyrir deilur og þjáningu átta þau sig á að samband þeirra er enn byggt á ást.

 

Godless (BUL/DEN/FRA) – Ralitza Petrova

Guðleysi / Bezbog

Gana hugsar um fólk með elliglöp og selur skilríkin þeirra á svörtum markaði, Það virðist ekki hafa nein áhrif á hana, en aukin samúð með nýjum sjúklingi vekur upp samviskuna hjá henni. Þegar hún er handtekin fyrir svik lærir hún að það kostar sitt að breyta rétt. Myndin vann Gullna hlébarðann á Locarno.

 

Oscuro Animal (COL/ARG/NED/GER/GRE) – Felipe Guerrero

Skuggavera

Skuggavera er saga þriggja kvenna sem eru neyddar til að flýja heimili sín á stríðshrjáðu svæði í Kólumbíu. Myndin hlaut verðlaun fyrir bestu myndina, bestu kvikmyndatökuna og bestu leikstjórnina á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Guadalajara og fyrir bestu myndina á kvikmyndahátíð Suður-Ameríku í Lima.

 

Park (GRE/POL) – Sofia Exarchou

Garður

Það eru liðin tíu ár og Ólympíuþorpið í Aþenu í Grikklandi hefur hnignað. Innan um yfirgefin íþróttamannvirki og áður gróðavænlega ferðamannastaði blandar hinn 16 ára gamli Dimitris, ásamt félögum sínum, saman fornri frægð Grikklands og úrkynjun nútímans. ‘Garður’ hlaut verðlaun á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni.

 

Personal Affairs (ISR) – Maha Haj

Persónuleg mál / Omor Shakhsiya

Í Nasaret búa eldri hjón við þreytandi daglegt amstur. Hinum megin við landamærin, í Ramallah, vill sonur þeirra vera eilífur piparsveinn, dóttir þeirra er við það að fara eiga barn á meðan eiginmaður hennar fær hlutverk í kvikmynd og amman er að missa stjórn á lífi sínu. Öll eru þau að kljást við persónuleg mál sem þau þurfa að leysa.

 

Quit Staring at My Plate (CRO/DEN) – Hana Jusic

Hættu að glápa á diskinn minn / Ne gledaj mi u puat

Líf Marijönu snýst um fjölskyldu hennar. Þau búa þröngt saman í lítilli íbúð og eru að gera hvert annað brjálað. Þegar stjórnsami faðir hennar fær heilablóðafall tekur Marjiana við stöðu hans sem höfuð fjölskyldunnar. Hún finnur huggun og frelsi í grófu kynlífi með ókunnugum. En nú þegar hún hefur loks kynnst frelsinu, hvað á hún að gera við það?

 

Still Life (FRA) – Maud Alpi

Kyrralíf / Gorge Coeur Ventre

Áhrifarík lýsing á sláturhúsi þar sem ungur pönkari fylgir dýrum í slátrun. Hundurinn hans er eina vitnið. Myndin er fínlega uppbyggð, á mörkum heimildamyndar og skáldskapar. Mönnum og dýrum er stillt upp sem jafningjum, nöktum og drifnum áfram af eðlishvöt. Allt rennur saman í eitt, matmálstímar, augnablik að loknu kynlífi og sundferðir í ánni.

 

Worldly Girl (ITA/FRA) – Marco Danieli

Veraldarvana stúlkan / La ragazza del mondo

Giulia’s býr í fornri veröld, tíminn stendur í stað og lífið byggist á úreldum helgum ritum. Þegar Guilia hittir Libero, uppgötvar hún að hugsanlega bíða hennar önnur örlög. Ungmennin hefja saman nýtt ástríðufullt líf, það verður til þess að Guiliu er úthýst algjörlega frá Vottum Jehóva og þar með veröldinni sem hún tilheyrði.

 

Wùlu (FRA/SEN) – Daouda Coulibaly

Ladji er tvítugur strætóbílstjóri í Malí sem stritar til að losa eldri systur sína Aminötu úr vændi. Hann talar við dópsala sem skuldar honum greiða. Með aðstoð vina hefur Ladji dreifingu á kókaíni. Stökkið yfir í undirheima eiturlyfjasalans auðveldar honum aðgengi að peningum, konum og lífi sem hann hafði aldrei órað fyrir. En gjaldið er hátt.

 

Zoology (RUS/FRA/GER) – Ivan I. Tverdovsky

Dýrafræði

Natasha er miðaldra dýragarðsstarfsmaður. Hún býr hjá mömmu sinni og þarf að þola óvenjulegt líf og slúður. Dag einn vex á hana hali. Í fyrstu skammast hún sín en nýtir þetta svo til góðs. Nýtt líf hefst, hún byrjar í sambandi og leyfir sér að gera sig að fífli. Að lokum þarf hún að velja milli raunveruleika og tálsýnar. Verðlaunuð á Karlovy Vary.

 

The Giant (SWE/DEN) – Johannes Nyholm

Risinn/Jätten

Rikard er einhverfur og alvarlega vanskapaður ungur maður sem reynir að finna löngu týnda móður sína gengum leikinn Pétanque.  Brothættur líkami Rikards og dómhart umhverfið gera honum lífið erfitt. ‘Risinn’ er mynd um mikið fatlaðan mann með stóra drauma. Hún sýnir hversu langt hægt er að komast með ímyndunaraflið eitt að vopni.

RIFF hefst 29. september næstkomandi.