Enginn aðskilnaður í Tjarnarbíói

04-10-05 16:00
Í kvöld frumsýnum við kanadísku heimildarmyndina Enginn aðskilnaður (Zero Degrees of Seperation) í Tjarnarbíói í kvöld kl. 21:00 að viðstöddum leikstjóranum Ellen Flanders. Flanders mun einnig sitja málfund um friðarhreyfingar í Ísrael og Palestínu kl. 17:15. Fundurinn fer fram í miðstöð Sameinuðu þjóðanna að Skaftahlíð 24.
Í Engum aðskilnaði er ástandið í Mið-Austurlöndum skoðað með öðrum hætti en oftast er gert í kvöldfréttunum. Tveimur samkynhneigðum pörum er gefinn gaumur, en í báðum tilfellum er annar aðilinn ísraelskur en hinn palestínskur. Palestínumaðurinn Selim og Ísraelinn Ezra berjast fyrir rétti sínum til þess að búa saman í Jerúsalem, í sífelldum ótta við að Selim verði borinn út. Auk þess þurfa þeir að þola fordóma og áreiti samfélagsins vegna kynhneigðar sinnar. Lesbíurnar Edit og Samira búa við svipaðar aðstæður og reyna hvað þær geta til þess að brúa bilið sem skilur menningarheima þeirra að. Þrátt fyrir að þær kljáist daglega við dulbúið óréttlæti sem birtist m.a. í vinnuleyfum og hliðum ísraelska hersins, auk aðskilnaðar og árása, þá halda þær samt alltaf í vonina og leyfa hatrinu aldrei að taka völdin. Sögum þessara para er skeytt saman við myndbönd af Vesturbakkanum frá sjötta áratugnum.Elle Flanders er alin upp í Kanada og Ísrael. 18 ára gömul hóf hún að rannsaka áhrif Ísraela á líf Palestínumanna með ljósmyndun. Myndir Flanders hafa reynt að draga fram í dagsljósið nýja sýn á gyðingsdóminn og Ísrael.