Fjölbreytt dagskrá framundan

31-07-06 13:03;
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leggur áherslu á að bjóða upp á nýjar og framsæknar myndir alls staðar að úr heiminum og skiptist dagskráin í nokkra flokka. Dagskrá hátíðarinnar mæltist frábærlega fyrir hjá almenningi í fyrra og dagskrárnefndin lofar því að hátíðin í ár verður enn betri. Dagskrá haustsins er óðum að skýrast eins og sjá má hér að neðan.RIFF hefur staðfest nýjustu kvikmynd Michael Winterbottoms,The Road to Guantanamo, en hún segir sanna sögu þriggja Breta sem voru í haldi í Guantanamo fangabúðunum í tvö ár án dóms og laga. Fangabúðirnar í Guantanamo hafa verið mikið í sviðsljósinu eftir að nokkrir fanganna þar frömdu sjálfsmorð fyrir nokkrum vikum síðan. Mynd Winterbottoms er blanda af heimildarmynd og leikinni kvikmynd og hefur vakið gríðarlega athygli.

Þá stendur til að sýna finnsku kvikmyndina Frozen City, en hún er eftir leikstjórann Aku Louhimies sem gerði einnig Frozen Land sem var sýnd hér á landi í fyrra. Myndin segir sögu leigubílstjórans Veli-Matti sem hefur glatað fjölskyldu sinni og stendur nú frammi fyrir því að vera dæmdur fyrir morð sem hann man ekki eftir að hafa framið. Myndin var í keppnisflokki Karlovy Vary hátíðarinnar sem er nýlokið.

Nýjasta mynd So Yong Kim og Bradley Rust Gray, In Between Days, verður sýnd á hátíðinni. Þau gerðu kvikmyndina Salt hér á landi fyrir þremur árum síðan. Í þeirri mynd voru eingöngu íslenskir leikarar, og Brynja Þóra Guðnadóttir vann Edduna fyrir besta leik í aðalhlutverki 2004. In Between Days vakti mikla athygli á kvikmyndahátíðinni í Berlín í vetur. Þar segir frá kóreskri stúlku í Toronto sem verður ástfangin af besta vini sínum. Sérstaka athygli Íslendinga vekur að hljómsvetin XXX Rottweiler á nokkur lög í myndinni.