Forseti Íslands afhendir Darren Aronofsky heiðursverðlaun RIFF á morgun

– Meistaraspjall á fimmtudag í Hátíðarsal Háskóla Íslands

Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Darren Aronofsky hlýtur heiðursverðlaun Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF árið 2016 fyrir framúrskarandi listræna sýn. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veitir Aronofsky verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðdegis á morgun, miðvikudaginn 5. október.

Darren Aronofsky er bandarískur leikstjóri sem er þekktur fyrir óvenjulegar myndir sínar, sem oft einkennast af súrrealískum og sálfræðilegum viðfangsefnum. Aðeins 47 ára gamall telst hann ungur meðal leikstjóra og sjást þess ýmis merki í kvikmyndum hans, þar sem meðal annars gætir áhrifa frá tónlistarmyndböndum, nýaldartrúarbrögðum og vísindaskáldskap. Þrjár kvikmyndir Aronofsky eru sýndar á RIFF í ár, Black Swan, Requiem for a Dream og The Wrestler. Hann hefur á ferlinum verið tilnefndur til fjölda alþjóðlegra verðlauna og hlaut tilnefningu til Óskarsverðlaunanna sem besti leikstjórinn fyrir myndina Black Swan. Nýjasta kvikmynd hans, Noah frá árinu 2014, var að hluta til tekin upp hér á landi og skartar Russel Crowe í titilhlutverkinu.

Aronofsky heldur meistaraspjall í hátíðarsal Háskóla Íslands næstkomandi fimmtudag, 6. október kl. 13 og er aðgangur ókeypis. Þar mun hann meðal annars segja frá kvikmyndum sínum og hugaðrefnum auk þess að svara spurningum úr sal. Andri Snær Magnason rithöfundur og Þóranna Sigurðardóttir leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi, stýra umræðum. Aronofsky tekur ennfremur þátt í pallborðsumræðum á málþingi í tilefni af opnun HÖFÐA, Friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, þar sem fjallað verður um áhrifamátt miðlunar og hvernig nýta megi mátt kvikmyndarinnar til þess að hafa áhrif á friðarhorfur í heiminum í dag.

 

Um Darren Aronofsky:

Darren Aronofsky fæddist í Brooklyn í New York árið 1969. Hann lærði kvikmyndagerð í Harvard og vann til nokkurra verðlauna fyrir útskriftarmynd sína. Fyrsta hans kvikmynd hans í fullri lengd var ‘Pi’ frá árinu 1998. Í myndum sínum vinnur Aronofsky oft með sterk þemu eins og stjórnsemi, ofurstjórn á huga og líkama, andlega heilsu og geðveiki. Hann teflir oft fram persónum með gríðarlega þráhyggju sem leiðir þær í átt að sjálfstortímingu.

Kvikmyndir hans einkennast af listrænni kvikmyndatöku sem dýpkar persónusköpunina. Fyrstu tvær myndir Aronofskys ‘Pi’ og ‘Requiem’ for a dream einkennast af „hip-hop montage“ sem er röð myndramma, kyrrmynda eða mynda á hreyfingu sem spilast hratt með hljóðum undir sem auka á áhrifin, myndöðinni er ætlar að líkja eftir atburðum eins og eiturlyfjanotkun. Aronofsky skiptir gjarna á milli ýktra nærmynda og mjög víðra ramma, og notar „time lapse“ kvikmyndatöku og fleiri sjónrænar tæknibrellur.

Aronofsky hefur gert sex kvikmyndir í fullri lengd og hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir þær. Flest verðlaun hlaut hann fyrir drama-tryllinn Black Swan frá árinu 2010, en fyrir þá mynd hlaut hann tilnefningu til Óskars-, Golden Globe og Baftaverðlauna fyrir bestu leikstjórn.