Full vika af íslenskum frumsýningum

Átta myndir í flokknum Icelandic Panorama
– íslensk frumefni og franskir rithöfundar, leitin inn á við og ókunnugt fólk að kynnast

RIFF er skurðpunktur íslenskrar og erlendrar kvikmyndalistar. Í flokknum Ísland í brennidepli – Icelandic Panorama eru sýndar nýjar íslenskar stuttmyndir, heimildarmyndir og myndir í fullri lengd sem Íslendingar hafa komið að svo eftir er tekið. Frumsýningar verða á íslenskum myndum og myndum sem tengjast landinu á einhvern máta á hverjum degi í vikutíma á meðan á hátíðinni stendur.

Á RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík í ár verða átta myndir sem annaðhvort eru íslenskar eða hafa sterk tengsl við Ísland. Hátíðin hefst þann 29. september næstkomandi og stendur yfir til 9. október.

Auk þeirra níu mynda sem hér eru taldar upp verður fjöldi íslenskra stuttmynda frumsýndur á hátíðinni.

Sem dæmi má nefna opnunarmynd hátíðarinnar í ár, The Together Project / Sundáhrifin / L’Effet Aquatique í leikstjórn Sólveigar Anspach. Sundáhrifin voru frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Cannes og vann þar til SACD-verðlaunanna fyrir bestu frönskumælandi kvikmyndina á lokahófi í Director’s Fortnig­ht-dag­skrár­inn­ar.

Sólveig lét baráttu við illvígt krabbamein ekki aftra sér frá því að klára tökur og eftirvinnslu myndarinnar að mestu leyti. Sólveig lést í ágúst árið 2015.

Sólveig leikstýrði Sundáhrifunum og skrifaði handritið ásamt Jean-Luc Gaget. Skúli Malmquist framleiddi fyrir Zik Zak kvikmyndir ásamt Partrick Sobelman sem framleiddi fyrir Ex Nihilo. Í stórum hlutverkum í myndinni eru Didda Jónsdóttir, Frosti Jón Runólfsson, Ingvar E. Sigurðsson og Kristbjörg Keld. Í aðalhlutverkum eru Florence Loiret Caille og Sam­ir Gu­esmi.

Að auki má þess til gamans geta að tvær myndir um Baska- eða Spánverjavígin verða frumsýndar hér á landi á RIFF. Það eru myndirnar Slaying of the Basques / Baskavígin og Killing of the Basque Whalers / Baskamorðin. Atburðirnir áttu sér stað árið 1615 en þá lentu baskneskir sjómenn í hrakningum við strendur Íslands og voru að lokum myrtir að undirlagi Ara í Ögri.

Myndirnar í Icelandic Panorama flokki RIFF eru:

The Together Project / Sundáhrifin / L’Effet Aquatique (ISL/FRA) – Sólveig Anspach/Jean-Luc Gaget

Kranamaðurinn Samir verður ástfanginn af Agöthu sundkennara í Montreuil. Hann þykist vera ósyndur og skráir sig í sundkennslu hjá henni. Agatha uppgötvar lygina og verður reið. Hún fer á ráðstefnu sundkennara á Íslandi. Samir, blindaður af ást, eltir hana, staðráðinn í að sanna virði sitt. Spaugileg hetjusaga hefst. Vann til verðlauna á Cannes.

 

Death in Westfjords / Der Tote vom Westfjord (GER/ICE) – Till Endemann

Sólveig Karlsdóttir, glæpasagnahöfundur frá Reykjavík, hefur öflugt ímyndunarafl og finnur það á sér þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þegar skólabróðir hennar finnst látinn við höfnina, sættir Sólveig sig ekki við að atburðurinn sé álitinn slys. Hún dregur fjölskyldudrama, svik, fjárhagsörðugleika og brostnar vonir fram í dagsljósið.

 

Northern Experience / Expérience Septentrionale / Upplifun á norðurslóðum (FRA / ICE) – Gurwann Tran Van Gie

Hvað gerist þegar heilinn og landslag renna saman í eitt? Með því að kvikmynda jarðbundna dáleiðslutíma reynir Gurwann Tran Van Gie að fanga áhrif íslenskra frumefna á hug franska rithöfundarins Thomas Clerc og íslenska listamannsins Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur. Huglæg og næm ferð sem skoðar uppbyggingu líkamans.

 

Pale Star (ICE/GBR) – Graeme Maley

‘Pale Star’ fjallar um eigingirni ástarinnar. Það hvernig eigingirnin afhjúpar valdagræðgi og stjórnsemi. Við sjáum í svartnætti hjartans morð í stað ástar. Harmsaga tveggja para sem verða á vegi hvers annars í dimmu og drungalegu landslaginu á suðurhálendi Íslands. Í alvöru íslenskri rökkurmynd, koma óhugnanleg leyndarmál fram í dagsljósið.

 

Ransacked (ISL) – Pétur Einarsson

Partíið, timburmennirnir, rándýrin, slagurinn, úrskurðurinn.“ Í október 2008 varð bankahrun á Íslandi. ‘Ransacked’ segir frá því hvernig auður, vogunarsjóðir og hagkerfi hafa áhrif á líf venjulegs fólks eins og Þorsteins Theódórssonar. Átta árum síðar hafa bankarnir selt burt hagnað sinn og hafa aftur grætt milljarða. Hver vinnur og hver tapar?

 

Killing of the Basque Whalers / Baskamorðin (ESP) – Eñaut Tolosa, Beñat Iturrioz

Árið 1615 sigldu 86 Baskneskir hvalveiðimenn, með Martín de Villafranca, Pedro de Aguirre og Esteban de Tellería í fararbroddi, til Íslands þar sem þeir urðu hluti af stærsta fjöldamorði í sögu Íslands. 32 veiðimenn voru myrtir á hrottafenginn hátt. En afhverju? Hópur fornleifafræðinga ferðaðist til Íslands fjórum öldum síðar til að fá botn í málið.

 

Slaying of the Basques / Baskavígin (ESP/ICE) – Aitor Aspe

Í júní 1615 beið íslenski fræðimaðurinn Jón Lærði Guðmundsson komu vina sinna, basknesku hvalveiðimannanna til Íslands. Vinir Jóns urðu fórnarlömb í einu stærsta fjöldamorði Íslandssögunnar. Fjögurhundruð árum eftir atburðina er sagan dregin fram í dagsljósið. Sögumaðurinn er Jón Lærði sem fordæmdi grimmdarverkin og greiddi fyrir það dýru verði.

 

When You Least Expect It / Þegar þú átt þess síst von (ESP/ICE) – Mart Kivastik

Viivi og Andu vakna saman einn morgun en þekkjast ekki neitt. Viivi upplifir versta dag lífs sins og Andu er algjört nörd. Melódramatísk gamanmynd og ástarsaga sem segir frá tveimur einmana einstaklingum. ‘Þegar þú átt þess síst von’ leiðir áhorfendur í sannleikann um hversu erfitt það getur verið að kynnast fólki. Það tekur tíma – stundum heila eilífð.

RIFF hefst þann 29. september næstkomandi og hátíðarpassa má nálgast hér.