Fyrir opnu hafi – heitustu myndirnar á RIFF 2016

Gullbjörn og tveir Silfurbirnir í flokknum í ár

Fyrir opnu hafi er yfirskrift þess flokks kvikmynda á RIFF sem inniheldur allra ferskustu  kvikmyndirnar hverju sinni og nýverið hafa vakið athygli á kvikmyndahátíðum víða um heim. Meðal þeirra kvikmynda sem valdar hafa verið í flokkinn að þessu sinni eru hinar áhrifamiklu heimildarmyndir Fire at Sea eftir ítalska leikstjórann Gianfranco Rosi sem hlaut Gullbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín í vor og The War Show í leikstjórn Danans Andreasar Dalsgaard og hinnar sýrlensku Obaidah Zytoon sem er opnunarmynd Venice Days á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í ár og verður að auki sýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í september, Death in Sarajevo eftir bosníska leikstjórann Danis Tanović sem hlaut Silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín í vor og Kollektivet eftir danska kvikmyndaleikstjórann Thomas Winterberg sem hlaut Silfurbjörninn í Berlín í fyrra. Alls eru níu kvikmyndir í fullri lengd í flokknum.

Það er RIFF mikið ánægjuefni að fá svo margar glænýjar kvikmyndir til sýninga á hátíðinni í ár.

 

Allar myndirnar í flokknum Fyrir opnu hafi á RIFF 2016:

 

KOLLEKTIVET – Danmörk / Svíþjóð / Holland

Fræðingarnir Erik og Anna stofna ásamt dóttur sinni kommúnu í stóru einbýlishúsi á 8. áratugnum í Kaupmannahöfn. Líflegt og kærleiksríkt samfélag breytist þegar nýtt ástarsamband reynir á þolrif þessa hugsjónafólks. Dregin er fram á fyndin og átakanlegan máta árekstur persónulegra langana og umburðarlyndis. Myndir hlaut Silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2015.

THE WAR SHOW – Danmörk / Finnland / Sýrland

Árið 2011 taka sýrlenska útvarpskonan Obaidah Zytoon og vinir hennar þátt í götumótmælum gegn Bashar al-Assad forseta, þegar arabíska vorið hefur náð til Sýrlands. Þar sem þau vita að heimaland þeirra mun verða fyrir varanlegum breytingum hefja þau að taka upp atburðina allt í kringum þau. En þegar ofbeldisfull viðbrögð ríkisstjórnarinnar snúast upp í blóðuga borgarastyrjöld, reynir á vonir þeirra um betra líf vegna ofbeldis, fangelsisvistunar og dauða. Obaidah ferðast um landið að miðpunkti uppreisnarinnar í Homs og norður-Sýrlands þar sem hún verður vör aukinn fjölda öfgahópa. The War Show er glæný, persónuleg vegamynd sem fangar örlög Sýrlands gegnum linsuna hjá litlum hópi vina.

MISTER UNIVERSO – Austurríki / Ítalía

Tizza Covi og Rainer Frimmel hófu að skoða heim sirkusins fyrir tíu árum síðan, við það hafa þeir orðið einskonar ljóðskáld veganna og bændanna. Með hverri mynd hafa þeir kafað dýpra í viðfangsefnið og frásögnin hefur auðgast.  Í myndinni ‘Herra alheimur’ blandast saman skáldskapur og heimildamynd.  Ungi ljónatemjarinn Tairo er ósáttur við líf sitt, hann týnir lukkugrip sínum og notar það sem afsökun fyrir að ferðast þvert yfir Ítalíu í leit að fyrrverandi herra alheimi, Arthur Robin, sem gaf honum gripinn fyrir löngu síðan. Myndin var tilnefnd sem besta evrópska myndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Locarno 2016.

SMRT U SARAJEVU – Frakkland / Bosnía-Hersegóvína

Á Hótel Europa, besta hótelinu í bænum, skipuleggur hótelstjórinn Omer móttöku sendinefndar diplómata. Á aldarafmæli morðsins sem leiddi af sér fyrri heimstyrjöldina er ætlunin að setja fram bón um frið og skilning.  Áhyggjur starfsfólksins eru af öðrum toga, þau hafa ekki fengið laun í marga mánuði og ætla í verkfall. Omer sér fram á hörmungarástand en tekst ekki að hrista af sér fortíðina. Myndin hlaut Silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2016 og FIPRESCI verðlaunin frá alþjóðasamtökum kvikmyndagagnrýnenda.

KATER – Austurríki

Andreas og Stefan lifa hamingjusömu lífi með fressi sínum, Moses. Þeir vinna báðir hjá sömu sinfóníuhljómsveitinni og er annt um stóran vinahóp sinn, en óvænt ofbeldisfull árás skekur sambandið.  Kvikmyndin hlaut Teddy-verðlaunin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2016 og dómaraverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Hong Kong  árið 2016 fyrir ferska kvikmyndagerð.

FUOCOAMMARE – Ítalía / Frakkland

Eyjan Lampedusa hefur margoft komið í heimsfréttunum sem fyrsti áfangastaður hundruða þúsunda flóttamanna frá Afríku og Miðausturlöndum í leit að nýju lífi í Evrópu. Ítalski leikstjórinn Gianfranco Rosi eyddi mörgum mánuðum á eyjunni og skrásetti sögu hennar, menningu og daglegt líf hinna 6.000 íbúa þar, sem sjá hundruðir flóttamanna nema land þar í hverri viku. Myndin hverfist um líf hins 12 ára gamla Samúels sem er búsettur á eyjunni. Myndin hefur hlotið margvísleg verðlaun, þar á meðal Gullbjörninn á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín 2016.

SENSOMMER – Noregur / Frakkland

Norskur rithöfundur er að tapa baráttu sinni við krabbamein, hún lokar sig af á afskekktu heimili sínu í Franskri sveit.  Einmanalegt líf hennar er truflað af ungu pari, leyndarmál líta dagsins ljós og valdabarátta milli þremenninganna magnast. Hvað er það sem parið vil frá dauðvona konu og hversvegna er henni svona umhugað um að fela fortíð sína? Kvikmyndin er gerð af ungum, norskum kvikmyndagerðarmanni, Henrik Martin Dahlsbakken (f. 1989), sem þegar hefur hlotið margvísleg verðlaun og var tilnefndur til Óskarsverðlaunanna fyrir nokkrum árum. Sensommer er heimsfrumsýnd á RIFF.

PYROMANEN – Noregur

Brennuvargur hefur feril sinn í rólegu þorpi. Í kjölfarið fylgja nokkrar íkveikjur sem valda ótta í þessu litla samfélagi. Í ljós kemur að sökudólgurinn er einn slökkviliðsmannanna í bænum og sonur slökkviliðsstjórans. Við kynnumst brennuvarginum og slökkviliðsmanninum vel þegar myndin rannsakar hvað stjórnar huga unga mannsins. Um Evrópufrumsýningu er að ræða á Pyromanen en hún verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto nú í september.

MAUDITE POUTINE – Kanada

Þegar hinn 27 ára gamli Vincent er staðinn að verki við að stela eiturlyfjum lendir hann á flótta frá mafíunni á svæðinu. Fyrir tilviljun endurnýjar hann kynnin við Michel bróður sinn sem hann sleit tengslin við fyrir mörgum árum. Meðan hann keppist við að lifa “eðlilegu lífi” horfir Vincet upp á bróður sinn missa tökin á tilverunni. Í dimmum, kaldranalegum og ofbeldisfullum heimi er ríkir mannúðin enn.