Goran Paskaljevic í sviðsljósinu í haust

28-06-06 10:17
Serbneski kvikmyndaleikstjórinn Goran Paskaljevic verður gestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem fer fram dagana 28. september til 8. október næstkomandi. Þá stendur til að sýna úrval mynda hans á hátíðinni.Goran Paskaljevic er virtur kvikmyndaleikstjóri sem hlotið hefur margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín og það er því mikill fengur að fá hann hingað til lands. Hann verður formaður dómnefndar á 41. Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni sem hefst 30. júní nk., en það þykir mikill heiður. Paskaljevic er gjarnan talinn til svokallaðra kvikmyndagerðarmanna af „Prag-skólanum“ sem útskrifast hafa úr kvikmyndaskólanum FAMU í Tékklandi. Fjöldi íslenskra kvikmyndagerðarmanna hefur einnig numið við FAMU, t.a.m. Grímur Hákonarson, Silja Hauksdóttir, Börkur Gunnarsson og Þorsteinn Jónsson.

Paskaljevic varð nokkuð þekktur fyrir stuttar heimildarmyndir en það voru leiknar myndir hans í fullri lengd sem skipuðu honum í fremstu röð evrópskra leikstjóra. Stíll þeirra, umfjöllunarefni og tragikómísk ára myndanna er undir áhrifum frá tékknesku nýbylgjunni. Myndir hans hafa unnið til verðlauna á ýmsum kvikmyndahátíðum, t.a.m. kvikmyndahátíðunum í Feneyjum, Chicago og nú síðast vann hann aðalverðlaunin í San Sebastian fyrir mynd sína A Midwinter’s Night Dream. Af öðrum mynda hans má nefna How Harry Became a Tree, The Powder Keg, Time of Miracles og Guardian Angel.

Karlovy Vary hátíðin er gríðarlega vinsæl meðal ungs fólks í Austur-Evrópu og þangað flykkjast árlega þúsundir manna til þess að gista á tjaldsvæði hátíðarinnar. Hátíðin er í svonefndum A-flokki sem þýðir að allir myndir í keppninni eru frumsýndar sérstaklega á hátíðinni. Meðal mynda sem hafa náð miklum vinsældum eftir gott gengi á Karlovy Vary hátíðinni eru Amélie (2001) og Ma Vie en Rose (1997).

Paskaljevic er fenginn hingað til lands í samstarfi við Baltankult stofnunina, en hún stendur fyrir serbneskum dögum á Íslandi í september og október.