Guantanamo-fangar á RIFF

04-08-06 16:27
The Road to Guantanamo í leikstjórn Michaels Winterbottoms segir sanna sögu þriggja breskra ríkisborgara – Shafiq Rasul, Asif Iqbal og Ruhal Ahmed – sem voru í haldi í Guantanamo fangabúðunum á Kúbu í tvö ár án dóms og laga. Nú er það staðfest að Shafiq, Asif og Ruhal verða gestir Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík og Amnesty International á Íslandi.2. október verða Shafiw, Asif og Ruhal viðstaddir frumsýningu The Road to Guantanamo og svara spurningum áhorfenda.
3. október munu þeir síðan taka þátt í málþingi um Guantanamo-fangabúðirnar, fangaflug, pyntingar, og sýnina sem birtist í The Road to Guantanamo.

Fyrstu 45 föngunum var flogið til Guantanamo í janúar 2002 grunaðir um aðild að Al-Quaeda. Mest hafa verið 750 í haldi þar, og enn eru rúmlega 400 einstaklingar frá 30 löndum innilokaðir án þess að þeim hafi verið birt ákæra eða verið leiddir fyrir dómara. Fangar í Guantanamo eru beittir pyntingum þó að slíkar aðferðir brjóti í bága við alþjóðasáttmála.