Hákarlar og týnd börn

03-10-05 11:00;
Við frumsýnum kvikmyndirnar Týndu börnin og Hákarl í höfðinu í kvöld að viðstöddum leikstjórunum Ali Samadi Ahadi og María Próchazkova.Týndu börnin
Í rúm 18 ár hefur ríkt borgarastyrjöld í Norður-Úganda, nánast án afskipta umheimsins. Þar ræna skæruliðar börnum, kenna þeim að drepa, og neyða þau til að myrða fólkið sitt. Börn, sem flýja herinn, eru ekki alltaf velkomin heim aftur, einfaldlega vegna þess að fólkið er hrætt við þau. Í heimildarmyndinni Týndu börnin er saga fjögurra barna, á aldrinum 8-14 ára, sögð. Þessi börn flúðu herinn, sneru aftur til síns heima til að verða börn aftur, en þau voru stimpluð sem morðingjar. Sagan er sögð frá sjónarhorni þeirra, og við fylgjumst með hvernig þeim tekst að fóta sig í lífinu á ný. Jafnframt er leitað svara við því hvort börnum, sem hafa verið hermenn, sé fyrirgefið og hvort þau muni einhvern tímann gleyma því sem þau gerðu. Týndu börnin fékk Panorama áhorfendaverðlaunin í Berlín 2005, fyrst allra heimildarmynda.
Sýningin fer fram í Regnboganum kl. 18:00

Hákarl í höfðinu
Hákarl í höfðinu, kvikmynd Mariu Procházková, kannar óendanlega möguleika tæknibrella og stafrænnar myndvinnslu til þess að koma til skila heimssýn aðalsöguhetju sem þjáist af ofskynjunum. Söguhetjan, hr. Sherman, er að mörgu leyti hinn dæmigerði nútímaborgarbúi. Hann er einhleypur, miðaldra og gengur um í náttslopp og á inniskóm, er með vindling og þriggja daga skegg. Hann er alltaf tilbúinn að skeggræða heima og geima við þá sem eiga leið hjá litlu íbúðinni hans í Prag – og lætur ekki á sig fá þótt hann sé ekki virtur viðlits. Hæglætislegt viðmót hans gefur þó lítið uppi um “hákarlinn í höfðinu” og sjúkdóminn sem hann þjáist af sem leiðir til þess að yfirvöld reyna að koma honum á stofnun. Hákarl í höfðinu er mögnuð könnun á sálarlífi þjáðrar manneskju, snilldarlega framsett af einum að efnilegustu leikstjórum Tékklands.
Sýningin fer fram í Regnboganum kl. 20:00