Hátíðin hefst!

29-09-05 09:00
Önnur Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík verður sett í kvöld með viðhafnarsýningu á dönsku kvikmyndinni Epli Adams (Adams æbler) í Regnboganum. Hrönn Marinósdóttir mun setja hátíðina auk þess sem kvikmyndaleikstjórinn Dagur Kári mun flytja svonefnda „hátíðargusu“ og Geir H. Haarde fjármálaráðherra flytja ávarp.Það er okkur sannur heiður að geta opnað hátíðina með Eplum Adams, en hún hefur verið að sópa að sér jákvæðri gagnrýni víðsvegar að úr heiminum. Þessi danska gamanmynd eftir hinn frábæra danska leikstjóra og handritshöfund Anders Thomas Jensen er trúarleg en nútímaleg saga um baráttuna milli góðs og ills. Adam er nýnasisti sem er skyldaður til að starfa í þágu samfélagsins og sendur til vinnu hjá prestinum Ivan. Ivan fær Adam það verkefni að baka eplaköku úr eplunum sem vaxa á trénu framan við kirkjuna. Á meðan háma fuglar og ormar í sig eplin, auk þess sem eldingu lýstur niður í tréð. Ivan telur að djöfullinn sé að reyna þá en Adam veðjar á að Guð sé hér að verki. Epli Adams er skemmtileg og innilega skandinavísk gamanmynd eftir sama leikstjóra og leikstýrði hinni vinsælu Blinkende Lygter árið 2000. Epli Adams var nú á mánudaginn valin sem framlag Dana til Óskarsverðlaunanna. Myndin verður einungis sýnd einu sinni, í kvöld kl. 20:00.

Aðrar sýningar í dag eru:
Dauði herra Lazarescus, Tjarnarbíói kl. 19:00.
Orrusta á himnum, Tjarnarbíói kl. 21:45
Beint á vegginn (Gegen Die Wand), Regnboganum kl. 22:00
Martröð Darwins, Háskólabíói kl. 17:45
Hræddur/helgur, Háskólabíói kl. 20:00
Fjandmaður fólksins, Háskólabíói kl. 20:00
Heilaga stúlkan, Háskólabíói kl. 22:05