Hátíðin í haust

09-05-06 11:56
Nú er sumarið loksins komið í Reykjavík og við erum á fullu við að undirbúa Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, en hún fer fram í þriðja sinn dagana 28. september til 8. október nk.Hátíðin í fyrra tókst mjög vel og nú hefur hún fest sig í sessi sem árlegur menningarviðburður í Reykjavík. Boðið var upp á 60 kvikmyndir frá 26 löndum auk ýmissa annarra viðburða. Almenningur tók vel við sér og fjölmennti í bíó og á hátíðin þeim bestu þakkir skyldar. Í haust er stefnt að því að stækka umfang hátíðarinnar og eru fjölmörg verkefni í bígerð sem greint verður frá fljótlega.

Markmið hátíðarinnar er sem fyrr að bjóða upp á fjölþætta dagskrá sem endurspeglar framsækni og nýbreytni í kvikmyndagerð, en hún leggur einnig áherslu á að kynna árlega fáeina af merkustu leikstjórum óháðrar kvikmyndagerðar. Auk þess leggur hátíðin kapp á að í Reykjavík verði til þekkingarsmiðja sem gagnast fagfólki og áhugafólki.