Hátíðin sett – Borgin myrkvuð

29-09-06 10:21
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík var sett í gær við hátíðlega athöfn í Tjarnarbíói. Hrönn Marinósdóttir stjórnandi hátíðarinnar, Björn Ingi Hrafnsson forseti borgarstjórnar og Ragnar Bragason kvikmyndagerðarmaður, fluttu ávörp áður en opnunarmyndin Drottningin var sett af stað í glænýrri sýningarvél í Tjarnarbíói.Kl. 22:00 voru öll götuljós í borginni slökkt. Íbúar höfuðborgarinnar tóku einnig virkan þátt og slökktu heima hjá sér en því miður fórst fyrir hjá fjölda fyrirtækja að slökkva á sinni lýsingu auk þess sem bílaumferð var nokkur.

Í rólegri hverfum borgarinnar var hins vegar niðamyrkur og sást til stjarna inn á milli skýja.

Aðsókn á hátíðina var góð í gær og miðasala á Netinu gengur vonum framar. Við viljum ítreka að þeir sem hafa keypt passa þurfa að sækja þá á Thorvaldsen, Austurstræti 8, milli kl. 11:00 og 19:00. Þar er enn fremur hægt að kaupa miða á allar sýningar í öllum kvikmyndahúsunum.