Heiðursgestir RIFF í ár

Heiðursgestir RIFF í ár eru þau Darren Aronofsky og Deepa Mehta. Þau heiðra hátíðina með komu sinni og munu bæði efna til Meistaraspjalls á meðan á hátíðinni stendur.

Aronofsky tekur á móti heiðursverðlaunum RIFF fyrir framúrskarandi listfengi og verða nokkrar af hans helstu myndum sýndar á hátíðinni. En hann er þekktur fyrir óvenjulegar kvikmyndir sínar sem oft eru uppfullar af súrrealískum og sálfræðitengdum hrylling.

Meðal þekktra mynda Aronofsky má nefna Noah, Black SwanRequiem for a Dream, Pi, The Wrestler og The Fountain. Hann hefur á ferlinum verið tilnefndur til fjölda alþjóðlegra verðlauna og hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn fyrir myndina Black Swan. Noah var svo aðeinhverju leyti tekin upp hér á landi og skartar meðal annars þeim Russel Crowe og Anthony Hopkins..

Masterclass Aronofsky fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands þann 6. október klukkan 13.00 og verður aðgangur ókeypis. Þar mun hann meðal annars segja frá kvikmyndum sínum og hugaðrefnum auk þess að svara spurningum úr sal.

Mehta er einn virtasti handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi okkar tíma. Hún tekur við heiðursverðlaunum RIFF fyrir æviframlag sitt til kvikmyndagerðar. Nýjasta mynd Metha, The Anatomy of Violence, kemur beina leið frá kvikmyndahátíðinni í Toronto þar sem hún verður heimsfrumsýnd. Sýningin á RIFF er því Evrópufrumsýning.

Mehta rannsakar í þessari nýju mynd fullri af tilfinningaþrunginni reiði einn alræmdasta glæp sem framinn hefur verið á Indlandi, hina hrottalegu hópnauðgun og morð á 23 ára gamalli konu í strætisvagni í Nýju Delhi árið 2012 sem vakti óhug um allan heim. Myndin blandar saman staðreyndum og skáldskap, en ellefu leikarar spinna þar aðstæður nauðgaranna sex í samvinnu við Metha. Einnig verða Midnight’s Children frá árinu 2012 og Beeba Boys frá árinu 2015 úr hennar smiðju sýndar.

Mehta er fædd í Indlandi en fluttist síðar til Kanada og starfar nú þar. Flestar kvikmynda hennar tengjast Indlandi á einn eða annan hátt og hafa margir af þekktustu leikurum Indlands leikið í kvikmyndum hennar.

Það er RIFF sannur heiður að bjóða þessa framúrskarandi kvikmyndagerðarmenn velkomna á hátíðina. RIFF hefst þann 29. september næstkomandi og stendur yfir til 9. október. Miða á hátíðina má nálgast hér.