Hvaða myndir vilt þú sjá á RIFF?

Við spurðum nokkra þekkta einstaklinga hvaða myndir þau vildu helst sjá á RIFF í ár.

Hér er hægt að skoða úrvalið á dagskránni í ár.

 

Högni Egilsson tónlistarmaður: 

HögniEgilsRIFF

O Brazen Age“ hrifinn af nafninu, vinur minn er að leika í henni og leikstjórinn er vinur minn, ferðuðumst saman á puttanum í hellidembu um suður frakkland og sögðum hvorum öðrum sögur. Og svo langar mig líka að sjá „Sleeping Giant“, þroskaferill unglinga er alltaf áhugaverður.  Umbreyting og nagandi sjálfsskoðun!“

Silja Hauksdóttir leikstjóri:

SiljaHauksRIFF

En Chance Til eftir Susanne Bier. Ég hef séð hana og mæli hiklaust með henni. Hún er hrikalega erfið og nærgöngul og ég mæli með því að fólk taki með sér andlegan stuðning í formi annarrar manneskju á þessa mynd. Susanne Bier er bara frábær.  Og svo er það As I Open my Eyes eftir Leylu Bouzid.  Rokk, ást, pólitík, bylting og Túnis að næturlagi, eru lykilorð sem gera þessa mjög spennandi. Ég hef heyrt frábæra hluti um myndina, verið að flækjast um Afríku sjálf og þessi leikstjóradama er víst algjör meistari sem að fjallar um risastór málefni á persónulegan og ópredikandi hátt.“

Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari:

ThorvaldurDavidRIFF

„Sem leikari hef ég alla tíð haft áhuga á faginu mínu sem og fólki almennt. Það er sennilega af þeirri ástæðu sem ég hlakka sérstaklega til þess að sjá myndirnar Ingrid Bergman in her Own Words, í leikstjórn Stig Björkman, þar sem saga leikkonunar er rakin í viðtölum, áður óbirtu myndefni, persónulegum bréfum og dagbókarfærslum – sem og Jia Zhang-Ke, A Guy From Fenyang í leikstjórn óskarsverðlaunahafans Walter Salles.“

Maria Rut Kristinsdóttir, markaðsstjóri GOmobile

 MariaRutRIFF

„ A Gay Girl in Damascus: The Amina Profile  [e. Sophie Deraspe]  Virðist vera mjög áhugaverð mynd. Bæði vegna birtingarmyndar þess hvernig það er að vera hinsegin þar sem það er bannað og sömuleiðis hvernig sjálfsmynd okkar hefur orðið með tilkomu samfélagsmiðla og slíkra miðla. Hljómar eins og mjög áhugaverð mynd.  Svo er það Þrestir, mig langar alveg ofboðslega mikið til að fara og sjá nýjustu mynd Rúnars Rúnarssonar. Myndin er tekin upp í heimabænum mínum, Flateyri, þar sem ég fylgdist með ferlinu og upptökunum úr fjarlægð þegar á þeim stóð. Ég held að Þrestir sé alveg þrusugóð mynd og ég ætla klárlega að fara að sjá hana!

Hilmar Oddsson, leikstjóri og skólastjóri

HilmarOddsRIFF

Eisenstein in Guanajuato, eftir Peter Greenaway. Það er alltaf áhugavert að komast í tæri við verk Greenaways, þau eru kannski ekki alltaf beinlínis „skemmtileg“ ( það gildir nú reyndar um mörg listaverk), en þau eru gjarnan myndræn veisla, enda höfundurinn í raun myndlistamaður. Svo á hann einstaklega auðvelt með að hneyksla eða kalla fram sterk viðbrögð hjá áhorfendum, hann er einfaldlega leikstjóri sem er sér á báti og alltaf áhugaverður. Efnið, Eisenstein í Mexíkó, kveikir í mér, enda þekki ég afrakstur Mexíkódvalar rússneska stórmeistarans.  Svo er það Mustang eftir Deniz Gamze Ergüven.  Ég veit ekkert um hana, en efnið vekur áhuga minn, sem og sögusviðið, Tyrkland, ekki síst eftir að ég átti þess kost að dvelja þar í rúma viku síðasta sumar og upplifa nokkrar hliðar þessa merkilega lands.“

Nína Dögg Filippusdóttir leikkona:

NinaDoggRIFF

„Ég verð nú að segja að ég er mest spennt að sjá Þresti [e. Rúnar Rúnarsson].  Svo elska ég danskar myndir þannig ég mun liggja yfir þeim, mig langar mikið að sjá Mænd og Höns eftir Tómas Anders Jensen.“

Andri Snær Magnason rithöfundur:

AndriSnærRIFF

„Mig langar mikið til að sjá Guldkysten, ný dönsk stórmynd eftir Daniel Dencik sem er rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður – þetta er períódumynd sem gerist 1836 í Afríku. – Svo er þarna flott úrval af heimildarmyndum sem gefa okkur innsýn í mikilvægustu mál samtímans. Ég er reyndar spammaður af einhverju sem heitir Polish Shorts and Docs frá því ég fór á einhverja kvikmyndahátíð fyrir löngu og fær vikuleg update frá þeim. Þannig að hin myndin væri eitthvað úr þeirri áttinni, Pólskar teiknimyndir. Það gæti verið áhugavert hvað menn eru að gera fyrir lítið fé með sterka myndhefð á bak við sig, kannski hægt að fá góðar hugmyndir þar.“

Guðrún Vilmundardóttir bókaútgefandi:

GudrunVilmundarRIFF

„Ég held ég falli fyrir Francofoniu, [e. Aleksandr Sokurov]  sem tvinnar saman skáldskap og sögulegar heimilidir um hvernig listmunum í Louvre-safninu var forðað undan ránshendi nasista, finnst efnið áhugavert og hlakka til að ræða það við safnamenn í mínum vinahópi.  Foodies [e. Thomas Jackson, Charlotte Landelius, Henrik Stockare], heimildarmynd um matargagnrýnendur sem þvælast á milli fínustu veitingastaða heims, trúi ég að geti komið á óvart og sagt eitthvað alveg stórfurðulegt um heiminn. Annars á ég of erfitt með að gera upp á milli myndanna, finnst oft best á kvikmyndahátíð að velja mér sal og tíma og sjá svo hvað boðið er upp á!“

Hallgrímur Helgason rithöfundur:

HallgrimurHelgaRIFF

„Francofonia – ég lep upp allt varðandi Louvre, uppáhaldsstaðinn minn í heiminum, og þetta virðist vera forvitnilegt, Hitler & Louvre.  Þrestir [e. Rúnar Rúnarsson] – eftir að hafa séð 500 grátandi Spánverja klappa fyrir henni á Facebook-síðunni hans Benna Erlings verður maður að sjá hana.“

Jóhanna Vigdís Arnardóttir leikkona

JohannaVigdisRIFF

„Að sjálfsögðu væri ég til í miklu fleiri, en þessar tvær helst: En Chance Til eftir Susanne Bier.  Ég er búin að vera aðdáandi Susanne Bier lengi og bið alltaf spennt eftir næstu mynd.  Svo er það Cavanna, He was Charlie eftir Denis Robert og Nina Robert.  Ég er að vonast til að þessi mynd varpi einhverju meira ljósi á þennan hörmulega atburð í París. Ég veit ekkert um myndina, en er forvitin.

Gunnar Björn Guðmundsson leikstjóri:

GunnarBGudmundssRIFF

„Það er mjög erfitt að velja bara tvær myndir það eru svo margar spennadi myndir í boði. En ef ég má bara velja tvær segi ég myndin hans Rúnars Rúnarssonar „Þrestir“ og „Stille Hjerte“ eftir Bille August, svo er  heimildamyndin „Who Took Johnny“ mjög áhugaverð. Mér finnst líka alltaf gaman að fara á myndir sem ég veit ekkert um, svona hálfgerð rúlletta. Þannig hef ég fundið margar mjög eftirminnilegar myndir. Svo eru náttúrulega fullt af spennandi stuttmyndum þarna.

Sigríður Thorlacius söngkona

SigridurThorlRIFF

Mig langar að sjá ýmislegt. Tale of Tales [e. Matteo Garrone] hljómar áhugaverð.  Súrrealísk og ævintýraleg mynd um skrítið fólk í konungshöllum. Þó ekki sé nema bara fyrir augað.  Svo ætla ég að sjá En Chance Til eftir Susanne Bier. Ég er svag fyrir dönsku bíói og  svo finnst mér Susanne Bier bara svo mögnuð og frábær.