Íslendingar áberandi í haust

12-09-06 17:37;
Það verður breitt úrval íslenskra mynda á hátíðinni í haust. Myndirnar sem um ræðir eru Act Normal, Anna og skapsveiflurnar, Dead Man’s Cards (Með dauðann á hendi), Góðir gestir, Þegar börnin leika sér í himninum og Reiði guðanna (Wrath of Gods). Þá verða tveir þættir úr nýrri syrpuLatabæjar frumsýndir í Kringlubíói.Anna og skapsveiflurnar (Anna and the Moods) í leikstjórn Gunnars Karlssonar er tölvuteiknuð mynd sem er gerð eftir handriti eftir Sjón. Damon Albarn, Björk og Terry Jones ljá persónum myndarinnar m.a. raddir sínar. Myndin verður forsýnd sérstaklega á fjölskyldudegi hátíðarinnar 8. október.

Act Normal (Vertu eðlilegur) er nýjasta mynd Ólafs de Fleur Jóhannessonar (Hlemmur, Africa United). Myndin er heimildarmynd um enskan búddamunk sem segir skilið við einlífið, og meira en það: Hann giftist, skilur við konuna sína, og gerist munkur á ný!

Með dauðann á hendi (Dead Man’s Cards) er sótsvört glæpamynd sem Bretinn James Marquand leikstýrir. Framleiðandi myndarinnar er Sigvaldi J. Kárason sem hefur starfað við klippingu við fjölda íslenskra kvikmynda, t.d. A Little Trip to Heaven, Kaldaljós, Engla alheimsins og 101 Reykjavík. Myndin gerist að mestu á næturklúbbi í Bretlandi og segir frá dyravörðunum Tom og Paul. Henni hefur verið líkt við Lock, Stock and Two Smoking Barrels.

Góðir gestir er ný íslensk stuttmynd eftir Ísold Uggadóttur sem verður frumsýnd á hátíðinni. Þar segir af ungri listakonu, Katrínu, sem er við nám erlendis en kemur heim til þess að vera viðstödd afmæli afa síns. Í afmælisveislunni dregur heldur betur til tíðinda þar sem röð óvæntra atburða eiga sér stað.

Þegar börnin leika sér í himninum (When Children Play in the Sky) er barnamynd sem Ítalinn Lorenzo Hendel leikstýrir. Íslenska framleiðslufyrirtækið SagaFilm tók m.a. þátt í framleiðslu myndarinnar sem verður einnig sýnd á fjölskyldudaginn 8. október. Myndin gerist á Grænlandi og segir tvær samhliða sögur af ungum drengjum, öðrum í upphafi 20. aldarinnar og hinum í upphafi þeirrar 21.

Reiði guðanna (Wrath of Gods) eftir Jón Gústafsson er heimildarmynd í fullri lengd og fjallar um gerð Bjólfskviðu Sturlu Gunnarssonar sem var frumsýnd í lok ágúst. Á ýmsu gekk á meðan myndin var í framleiðslu, allt frá vandræða við fjármögnun vegna gengisbreytinga til skaðræðisveðra sem eyðilögðu átta farartæki á einum tökudegi. Jón Gústafsson var í aukahlutverki í myndinni og notaði frítima sinn á tökustað til að gera þessa mynd.

Á fjölskyldudaginn 8. október verða tveir þættir úr nýrri Latabæjarsyrpu frumsýndir, en tökum lauk í síðustu viku. Þættirnir tveir bera heitin „Haunted Castle“ og „Little Spartacus“ og eru fyrstu Latabæjarþættirnir sem eru útbúnir sérstaklega fyrir kvikmyndahús. Persónur úr þáttunum munu mæta og skemmta viðstöddum.