Lazarescu uppgötvun ársins!

10-10-05 09:00
Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík lauk í gærkvöldi með hátíðlegri athöfn í Regnboganum. Alls sóttu yfir 13.000 manns hátíðina þá ellefu daga sem hún stóð yfir. Hlutfall sætanotkunar var 76% í sölum hátíðarinnar, sem telst afskaplega gott.Kristín Jóhannesdóttir afhenti verðlaunin „uppgötvun ársins“ fyrir hönd dómnefndar, en verðlaunin eru helguð leikstjórum sem eru að gera sína fyrstu eða aðra mynd. Í ár sigraði kvikmyndin Dauði hr. Lazarescus eftir Cristi Puiu. Myndin verður sýnd í Háskólabíói í kvöld kl. 20:00. Dómnefndin minntist einnig sérstaklega á kvikmyndina Heilaga stúlkan eftir Lucreciu Martel. Áhorfendaverðlaunin fóru til japönsku teiknimyndarinnar Töfrakastali Howls eftir Hiayo Miazaki.

Óvissumynd hátíðarinnar var frumsýning á heimildamyndinni Africa United eftir Ólaf Jóhannsson. Í myndinni er eitt tímabil hjá samnenfdu fótboltaliði rakið, en liðið samanstendur af erlendum innflytjendum, flestum frá Afríku.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík þakkar kvikmyndaunnendum fyrir frábærar viðtökur og ótrúlega aðsókn. Af viðtökunum að dæma er augljóst að á Íslandi er áhugi og skilningur á metnaðarfullri kvikmyndagerð sem liggur utan meginstraumsins og utan N-Ameríku. Við sjáumst á næsta ári, en hátíðin mun fara fram dagana 28. september til 8. október.

Takk fyrir okkur!