Leikstjórar viðstaddir í dag

07-10-06 14:52
Dönsku leikstjórarnir Niels Arden Oplev og Anders Østergaard verða viðstaddir sýningar á myndunum Draumurinn og Gasolin’ í dag. Gasolin er sýnd kl. 18:20 í Háskólabíói og Draumurinn í sama bíói kl. 20:20.
GASOLIN’
Gasolin’ er saga hljómsveitar sem breytti gangi danskrar tónlistarsögu. Þetta er heillandi saga fyrstu hljómsveitar Kim Larsen – fjögurra pilta sem komu saman til að spila tónlist því það kom einfaldlega ekkert annað til greina. Vinátta myndast og tónlistin tekur að óma, líkt og þegar Kim Larsen skrifar fyrstu línur sínar á dönsku sem verður upphafið að lengri ferli en nokkurn gat órað fyrir. Leikstjórinn Anders Østergaard sló í gegn árið 2003 með hinni lofuðu Tinni og ég sem varpaði nýju ljósi á hetju Hergé. Þessi nýja mynd hans Gasolin’ hefur slegið öll aðsóknarmet heimildamynda í Danmörku og nú geta Íslendingar tekið lagið með dönsku rokkurunum óviðjafnanlegu.
DRAUMURINN
Þrettán ára gamall lendir Frits upp á kant við skólastjórann sinn Lindum-Svendsen. Sá hefur ríkt sem einræðisherra í skólanum í aldarfjórðung og komist upp með að beita nemendur líkamlegu ofbeldi í ögunarskyni. En árið 1969 hafa tímarnir breyst og Frits er enginn venjulegur nemandi. Innblásinn af mannréttindabaráttu Martin Luther King ákveður Frits með aðstoð foreldra sinna að berjast gegn oki skólastjórans. Janus Dissing Rathke sýnir frábæran leik sem Frits, þótt ungur sé, og gamla brýnið Bent Mejding fer á kostum í hlutverki skólastjórans. Þessi einstaka mynd Niels Arden Oplev byggir á sönnum atburðum og er enn eitt dæmi þess hve vel dönskum leikstjórum tekst að blanda saman gamni og alvöru. Oplev er Íslendingum að góðu kunnur fyrir sjónvarpsþætti sína Örninn en hann er jafnframt gestur kvikmyndahátíðar í ár. Draumurinn hefur slegið öll aðsóknarmet í Danmörku.