Miðnæturmyndin krufin

05-10-05 09:00;
Við frumsýnum Miðnæturmyndir: Af bekknum á miðjuna í Tjarnarbíói í kvöld kl. 21:00. Leikstjórinn Stuart Samuels verður viðstaddur sýninguna og svarar spurningum áhorfenda.Á föstudaginn mun Stuart halda masterclass-námskeið um heimildarmyndir og poppmenningu í Tjarnarbíói kl. 15-17. „Það er búið að fjalla um 20. öldina og nú þurfa kvikmyndagerðarmann að beina linsunni að poppmenningu 21. aldarinnar, sérstaklega áhrifum bandarískrar poppmenningar á heiminn. Við þurfum á popp-heimildarmyndum að halda til að geta gagnrýnt poppmenninguna,“ segir Stuart um námskeið sitt.Á áttunda áratugnum urðu stórkostlegar breytingar á bandarísku samfélagi. Þetta var áratugur uppreisnar og endurmats á ríkjandi samfélagsgildum. Ný stétt varð til – unga fólkið – og hún þurfti á sínum eigin hugmyndum, viðmiðum, og ekki síst kvikmyndum að halda. Leikstjórar á borð við David Lynch, John Waters og George Romero gerðu á þessum tíma myndir sem endurskilgreindu hugmyndir fólks um hvað væri eðlilegt, smekklegt eða listrænt. Þessar myndir hafa í síðari tíð verið nefndar „miðnæturmyndir“ og áhrifa þeirra gætir enn hjá ungum kvikmyndaleikstjórum. Fyrir tilstilli þessara mynda þykir skrýtið gott og fríkað flott, auk þess sem spurningarmerki er sett við skilgreiningar á hinu eðlilega og hinu óeðlilega. Í Miðnæturmyndum: Af bekknum á miðjuna er saga þessara mynda sögð með viðtölum við þá sem gerðu þessar myndir, en kastljósinu er ekki síður beint að þeim sem sáu þær. Leikstjórinn Stuart Samuels verður viðstaddur sýninguna.

Stuart Samuels hefur leikstýrt fjölda mynda fyrir sjónvarp, auk þess sem hann hefur leikstýrt fjölda heimildarmynda og tónlistarmyndbanda. Hann hóf feril sinn sem kennari í kvikmyndafræðum en yfirgaf fræðistörfin árið 1983 til að starfa við kvikmyndir.

Mynd Stuarts er sýnd aftur á föstudagskvöld kl. 23:00. Myndin Strokhöfuðleður (Eraserhead) eftir David Lynch verður sýnd í beinu framhaldi.