Nældu þér í miða á Frankenstein

Sundhöllin umbreytist í kastala hins ofvitra en þráhyggjufulla Doctor Henry Frankenstein næstkomandi laugadag. Takmark dr. Frankenstein er að reisa hina dauðu til lífs á ný. Hann nær að kveikja líf í veru sem er búin til úr brotum af líkum, en þarf um leið að taka ábyrgð á þessu sköpunarverki sínu sem hann getur ekki stjórnað.

Óhætt er að lofa dimmu og drungalegu andrúmslofti í gömlu Sundhöllinni, sem tekin var í notkun sex árum eftir að kvikmyndin Frankenstein kom út. Flestir ættu að kannast við myndina sem kom út árið 1931 og er byggð á samnefndu leikriti eftir Peggy Webling en leikritið er að sama skapi byggt á samnefndri skáldsögu eftir Mary Shelley.

Furðuleg hljóð munu heyrast í sturtunum, óvæntir gestir að handan svamla um í lauginni og aldrei að vita nema sjálfur doktorinn verði vappandi á bakkanum.

Hleypt verður inn klukkan 20.00 og aftur klukkan 22.00, myndin byrjar 30 mínútum síðar. Miðaverð er 2000 kr. og er miðasala hér.

RIFF stendur yfir frá 29. september til 9. október.