Og uppgötvun ársins er…

08-10-06 15:30
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hélt lokahóf og afhenti verðlaun í gærkvöldi.Aðalverðlaun hátíðarinnar, „uppgötvun ársins,“ fóru til bosnísku kvikmyndarinnar Grbavica eftir Jasmila Zbanic. Formaður dómnefndar, Niki Karimi, veitti verðlaunin. Grbavica heitir eftir samnefndu hverfi í Bosníu og er raunsætt og áhrifamikið drama sem tekur á erfiðleikum eftirstríðsáranna í Bosníu. Dómnefndin minntist einnig sérstaklega á ungversku kvikmyndina Ferskt loft (Friss levego).

Samtök kvikmyndagagnrýnenda og blaðamanna um heim allan, FIPRESCI, veittu ensku kvikmyndinni Rauður vegur (Red Road) eftir Andrea Arnold sín verðlaun. Arnold var gestur hátíðarinnar en var farin af landi brott í gærkvöldi. Árni Þórarinsson veitti verðlaunin. Rauður vegur er fyrsta af þrem myndum verkefnisins The Advance Party þar sem sömu persónur túlkaðar af sömu leikurum birtast í ólíkum kvikmyndum mismunandi leikstjóra.

Áhorfendaverðlaunin fékk danska kvikmyndin Draumurinn (Drömmen) eftir leikstjórann Niels Arden Oplev. Oplev var viðstaddur og veitti verðlaununum viðtöku. Draumurinn hefur verið langvinsælasta kvikmynd Dana í heimalandinu það sem af er ári.

Framkvæmdastjóri stúdentaráðs, Ásgeir Runólfsson, veitti mexíkósku kvikmyndinni Af engum (De NADIE) sérstök mannréttindaverðlaun. Myndin er eftir Tin Dirdamal og segir frá því sem innflytjendur frá Suður- og Mið-Ameríku þurfa að ganga í gegnum á leið sinni til Bandaríkjanna.

Að lokum veitti biskup Íslands verðlaun fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Kvikmyndin Fjórar mínútur (Vier minuten) fékk verðlaunin. Í rökstuðningi dómnefndar kirkjunnar segir: „Örlög tveggja kvenna fléttast saman í sögu sem vekur upp spurningar um tilgang lífsins, frelsi, köllun og hæfileika. Fortíð beggja geymir leyndarmál sem hafa mótað þær og fjötrað. Konurnar tengjast í tónlist sem verður vettvangur átaka og farvegur endurlausnar. Óbeislaður sköpunarkraftur og mannleg reisn birtist með áhrifamiklum hætti í eftirminnilegu lokaatriði þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls. Kraftaverk endurlausnar og sigurs gerist á fjórum mínútum.“