ÍSLENSKAR STUTTMYNDIR Á DAGSKRÁ – VONARSTJÖRNUR ÍSLENSKRAR KVIKMYNDAGERÐAR

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík kynnir í dag þær íslensku stuttmyndir sem verða sýndar á RIFF í ár.

Í flokki íslenskra stuttmynda í ár eru 16 myndir eftir unga kvikmyndaleikstjóra af báðum kynjum, sannkallaðar vonarstjörnur íslenskrar kvikmyndagerðar. 

Allar myndirnar eru frumsýndar á Íslandi á hátíðinni.  Aðstandendur bestu íslensku stuttmyndarinnar hljóta viðurkenningu í minningu Thors Vilhjálmssonar.  Valdar myndir úr flokki íslenskra stuttmynda verða svo kynntar á alþjóðavísu af RIFF, t.d. á La Cinémathéque Francaise í París.

Í gegnum tíðina hafa ungir kvikmyndagerðamenn, í bland við reyndari, stigið sín fyrstu skref í kvikmyndagerð.  Margar stuttmyndir sem frumsýndar hafa verið á RIFF hafa síðan í framhaldinu vakið verðskuldaða athygli á alþjóðavettvangi og leikstjórar þeirra hafa sprungið út sem fullþroskað kvikmyndagerðafólk, t.d. Rúnar Rúnarsson, Guðmundur Arnar Guðmundsson, Eva Sigurðardóttir (sem á einmitt mynd í ár í flokknum) o.fl. 

Þáttakendur í ár eru strax farin að vekja athygli á alþjóðavettvangi, en Eva Sigurðardóttir hlaut einmitt í gær viðurkenningu fyrir stuttmynd sína Rainbow Party á London Film Festival og Þórður Pálsson hlaut  hin virtu Nordic Talent Prize fyrir stuttmynd sína Brothers.

Í dómnefndinni í flokki íslenskra stuttmynda í ár eru:  Guðrún Helga Jónasdóttir, Reynir Lyngdal og Valdís Óskarsdóttir.

riff-2015---Brothers---Still-hi-res-[180751] riff-2015---Echo---Still-hi-res-[191144] riff-2015---Rainbow-Party---Still-hi-res riff-2015---The-Catman---Still-lo-res-[184761] riff-2015---Torture.AVI---Still-hi-res-[187906]

Myndirnar í flokki íslenskra stuttmynda í ár eru:

 

Brothers / Bræður

Þórður Pálsson – ICE/GBR / 23 min

Chris er sextán ára. Líf hans tekur beygju þegar stúlka utan af landi kemur óvænt inn í líf hans. En skapstór bróðir hans, David, á eftir að koma þeim í vandræði enn einu sinni.

 

Acedia/ Spegilmynd

Erla Hrund Halldórsdóttir – ICE – 14 min

Tvær ólíkar konur fara sín hvora leiðina í lífinu en samt enda þær á svipuðum stað. Byrðar annarrar reynast léttir hinnar.

 

Hey Dad – been a long time / Hæ Pabbi – þótt við þekkjumst ekki neitt

Haukur Karlsson – ICE – 16 min

Með því að fylgjast með sambandi föður og sonar sem lítið þekkjast kemur í ljós að ekkert er eins verðmætt og vinátta.

 

Pattern /Mynstur

Valdimar Kúld – ICE – 15 min

Snjall rósemispiltur sem finnst hann hvergi tilheyra, hvorki heima hjá sér né með samnemendum sínum, á í baráttu við myrkar hliðar eigin sálarlífs.

 

Echo / Bergmál

Atli Þór Einarsson – ICE – 9 min

Eftir mikinn þrýsting frá foreldrum sínum finnur ungur listmálari óhefðbundna leið til að klára mikilvægt málverk í von um að skapa alvöru meistaraverk.

 

Unfolded / Rof

Kristín Ísabella Karlsdóttir – ICE – 10 min

Róbert er ungur maður sem fótar sig illa í lífinu sökum þunglyndis. Fjölskylda hans tekur með ólíkum hætti á stöðu Róberts en yngri bróðir hans Stefán tekur málin að lokum í sínar hendur.

 

You and Me / Þú og ég

Ása Helga Hjörleifsdóttir – ICE – 13 min

Stelpa og strákur kynnast á kaldri vetrarnóttu. Hún býður honum heim til sín þar sem hlutirnir fara úr böndunum. Dóttir hennar vaknar við lætin og í kjölfarið eiga sér stað ákveðin hlutverkaskipti meðan þær glíma við eftirmála næturinnar.

 

The Catman/ Kattamaðurinn

Barði Guðmundsson – ICE / 19 min

Narfi er 75 ára og býr með köttunum sínum í miðbæ Reykjavíkur. Hann hefur lifað litríku lífi en er orðinn þreyttur og þunglyndur. Þegar góðvinur hans kíkir í heimsókn skella þeir sér út á lífið.

 

Rainbow Party / Regnbogapartý

Eva Sigurðardóttir – ICE – 15 min

Soffía er 14 ára stelpa sem er lögð í einelti og þráir ekkert heitar en að falla í hópinn. Hún tekur afgerandi skref til þess að ná markmiði sínu en það hefur meiri áhrif en hana hafði grunað.

 

Zelos

Þóranna Sigurðardóttir – USA/ICE – 15 min

María er kappsfull kona á fertugsaldri. Hún tekur upp á því að panta sér Zelos klón undir því yfirskyni að það nýtist til húsverka og skapi þannig meiri tíma í faðmi fjölskyldunnar. Hún vill ekki síður standast samkeppni við vinkonu sína Ari sem virðist lifa fullkomnu lífi.

 

Babel LTD / Babel hf.

Smári Gunnarsson – ICE/GBR – 9 min

Framkvæmdastjórinn fær þrjá af sínum bestu mönnum til að takast á við erfitt verkefni fyrir einn stærsta kúnna þeirra. Skilja þeir óskir yfirmannsins? Skilja þeir hvorn annan? Skilja þeir lausnina?

 

Desert Talks / Eyðimerkurspjall

Ferrier Aurèle – SUI/ICE/CHI

Myndbandsverk byggt á samnefndri umræðuröð. Gestirnir velja áfangastað eða slóða í samstarfi við leikstjórann. Þar ræða þeir hugtökin eyðimörk og tómleika.

 

Torture.AVI / Pynding.avi

Dan Nicholls – CAN – 7 min

Karen er fórnarlamb þriggja mannræningja sem taka upp myndband þar sem þeir krefjast lausnargjalds fyrir hana. Karen notar vitsmuni sína til þess að grafa undan sambandi þríeykisins, sem þegar stendur á brauðfótum.

 

Immigrant / Innflytjandi

Einar Erlingsson & Jón Bragi Pálsson – ICE – 4 min

Stúlka frá Mið-Austurlöndum skrifar föður sínum bréf. Frásögn stúlkunnar fer fram á Farsí og segir frá degi í lífi hennar í nýjum og frábrugðnum heimi.

 

Heimildaminnd / Docyoumentory

Jón Ásgeir Karlsson – ICE / 4 min

Krakki gerir að gamni sínu heimildamynd um húsið sitt. En hús er ekkert endilega heimili.

 

Narrative Conflict / Ósamræmi

Jónas Haux – ICE/DEN – 7 min

Sögumaður reynir að segja hér sögu feimins manns sem manar sig upp í að bjóða konu á stefnumót. Málin flækjast þegar annar sögumaður er kynntur til leiks sem hefur í hyggju að breyta sögunni, söguhetjum og sviðsetningu.