Rúmlega 1.000 börn heimsækja RIFF í ár

– Spennandi myndir og viðburðir í boði fyrir börn á hátíðinni

Yfir 1.000 börn á aldrinum 6 til 15 ára munu heimsækja Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í ár ásamt skólanum sínum. Börn úr öllum bekkjardeildum ýmissa reykvískra grunnskóla munu sjá stuttmyndir í Bíó Paradís virka morgna á meðan á hátíðinni stendur.

Um helgina verður margt spennandi í boði fyrir börn á RIFF, bæði fjölskyldusundbíó og barnakvikmyndahátíð í Norræna húsinu. Fjörið hefst að morgni laugardagsins 1. október með náttfatapartíi og stuttmyndadagskrá fyrir 6 ára og eldri kl. 11 sem verður textuð á rauntíma af íslenskum leikurum. Gestir eru hvattir til að mæta í náttfötum með bangsa og teppi til að kúra með á meðan horft er á myndirnar. Boðið verður upp á kakó og kaffi fyrir alla. Kl. 13 hefst síðan stuttmyndadagskrá fyrir 8 ára og eldri og kl. 15 fyrir 10 ára og eldri. Daginn eftir verður síðan stuttmyndadagskrá kl. 13 fyrir 12 ára og eldri og kl. 15 hefst dagskrá sem hugsuð er fyrir börn sem eru 14 ára og eldri. Þá verða unglingamyndirnar Láttu þig dreyma og Mjúk leðja ennfremur sýndar á hátíðinni og situr Arnar Þór Þórisson, tökumaður Mjúkrar leðju, fyrir svörum eftir sýningu í Norræna húsinu á sunnudag kl. 17.

Sundbíóið vinsæla er orðinn fastur liður hjá mörgum íslenskum fjölskyldum. Í ár verður Sundhöllinni umbreytt í snjóþungan skóg, þar sem Greppikló býr ásamt Greppibarninu sínu. Búta úr skóginum verður að finna á víð og dreif um búningsklefana þar sem skógarhljóðin hljóma og skuggi músarinnar sem gabbaði Greppikló forðum læðist með veggjum. Sýningin á Greppibarninu er haldinn í samstarfi við Sundlaugar Reykjavíkurborgar og Huldufugl, og verða fjórar sýningar yfir daginn, kl. 13, 14, 15 og 16.

Kvikmyndagerð barna fær einnig sinn sess á RIFF í ár. Þann 3. október kl. 17 verður afrakstur námskeiðsins Stelpur filma! sýndur í Norræna húsinu, þar sem unglingsstelpur frá Íslandi, Færeyjum og Finnlandi lærðu stuttmyndagerð undir handleiðslu Ilmar Kristjánsdóttur og fleiri íslenskra kvikmyndagerðarkvenna. Afrakstur námskeiðs í kvikmyndagerð í grunnskólum í Garðabæ síðastliðið vor verður sýndur í Norræna húsinu sunnudaginn 2. október kl. 11, og einnar mínútu myndir, sem 60 börn í 5. og 6. bekk gerðu á námskeiði sem RIFF hélt í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, verða sýndar í upphafi skólasýninganna.

Síðast en ekki síst verður teiknisamkeppni fyrir börn á vegum RIFF. Skila skal inn myndum af lunda að búa til bíómynd í miðasöluna í Bíó Paradís fyrir 5. október og fá þrjár bestu myndirnar gjafabréf frá Tulipop í verðlaun. Allar myndirnar verða til sýnis til 9. nóvember í Bíó Paradís.