Þátttakendur í Scanorama Shortcut

RIFF þakkar kærlega fyrir mikinn áhuga á námskeiðinu Scanorama Shortcut. Fjöldi umsókna barst og voru valdir umsækjendur boðaðir í viðtal. Nú liggur hópurinn fyrir. Hann skipa frá Íslandi og Litháen:

Anna Sæunn Ólafsdóttir
Birnir Jón Sigurðsson
Íris Stefanía Skúladóttir
Jasmin Rexhepi
Óskar Kristinn Vignisson

Lina Simutytė
Marija Fridinovaitė
Marius Pocevičius
Mikas Žukauskas
Rūta Bučiūnaitė

Scanorama Shortcut er hagnýtt námskeið fyrir unga kvikmyndagerðarmenn. European Film Forum Scanorama og Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) standa fyrir námskeiðinu sem er tvískipt og fer fram á Íslandi (á Sauðárkróki og í Reykjavík) dagana 26. til 30. maí og í Litháen (í Nida Art Colony) dagana 19. til 25. júlí.

Markmið námskeiðisins er að veita ungum kvikmyndagerðarmönnum aukna þekkingu á sviði nýsköpunar og framleiðslu sem þeir geta nýtt í eigin starfi. Námskeiðið er byggt upp á þann veg að lærdómur, skemmtun og tengslamyndun tvinnast saman. Mikil samkeppni einkennir kvikmyndaheiminn og veitir námskeiðið ungu fólki tækifæri til þess að læra hagnýta þætti sem nýtast við framleiðslu, kynningu og sköpun kvikmyndar. Þátttakendur sitja fyrirlestra, og námskeið, hjá aðilum sem starfa á sviði kvikmyndagerðar, listrænnar stjórnunar, nýsköpunar, menningarstjórnunar eða fyrirtækjareksturs, svo dæmi séu tekin.