Stemmning í Cannes

22-05-06 11:08;
Fullt var út úr dyrum í veislu sem Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hélt til þess að vekja athygli á hátíðinni sem nýjum og spennandi áfangastað á þéttskipuðu hátíðaralmanaki kvikmyndaáhugamanna.


Hádegisverðurinn fór fram á veitingastaðnum Long Beach sem er á ströndinni í Cannes. Borð voru skreytt með íslenskum sandi og veislugestir höfðu með sér hluta af Íslandi þegar þeir fóru heim, ýmist vatn úr Snæfellsjökli, fjallagras eða hraunmola. Auk þess var boðið upp á íslenskt vatn og íslenskt vodka.Sjónvarpsmenn frá NBC og BBC komu til þess að fylgjast með viðburðinum auk blaðamannsins Derek Elly frá Variety, stærsta og virtasta kvikmyndatímarits í heimi, og fulltrúa frá veftímaritinu IndieWIRE. Blaðamaðurinn Derek Malcolm hjá dagblaðinu Guardian í Bretlandi naut veislunnar til hins ítrasta og sama má segja um hinn virta serbneska leikstjóra Goran Paskaljevic. Jytte Jensen, sýningarstjóri hjá Museum of Modern Art í New York var einnig viðstödd.

Stjórnendur nokkurra af stærstu kvikmyndahátíðum heims lét sjá sig, þ.á.m. stjórnendur kvikmyndahátíðarinnar í New York, Karlovy Vary, Toronto, Montreal, Varsjá og fleirum.

Fjöldi Íslendinga er staddur í Cannes um þessar mundir, og Sigurjón Sighvatsson, Jón Ólafsson og Sólveig Anspach létu öll á sér kræla. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, kom sérstaklega til Cannes til þess að vera viðstödd hádegisverðinn. Hún ávarpaði veislugesti auk Hrannar Marinósdóttir, stjórnanda hátíðarinnar, og Dimitri Eipides, dagskrárstjóra hátíðarinnar.