Styttist í skilafrest hjá RIFF

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, tekur við myndum til að sýna á hátíðinni til 15. júlí.

RIFF, hvetur íslenska kvikmyndagerðarmenn til þess að senda inn stuttmyndir til þátttöku á næstu hátíð sem fer fram í haust, dagana 24. september til 4. október.

Kvikmyndagerðarmenn þurfa að hafa hraðar hendur því opið er fyrir innsendingu íslenskra stuttmynda, auk mynda í fullri lengd, til og með 15. júlí.

Íslenskar kvikmyndir og stuttmyndir eru sýndar í flokkinum Ísland í brennidepli (e. Icelandic Panorama) en RIFF leggur sérstaka áherslu á íslenska stuttmyndadagskrá og vill styðja efnilega leikstjóra og framsækna kvikmyndagerð. Undanfarin ár hefur RIFF stuðlað að kynningu á stuttmyndadagskrá sinni utan landsteina.

Í fyrra voru 20 íslenskar stuttmyndir frumsýndar á hátíðinni. Málarinn í leikstjórn Hlyns Pálmasonar var valin besta íslenska stuttmyndin og hlaut verðlaun úr Minningarsjóði Thors Vilhjálmssonar og Undir rós (Sub Rosa) í leikstjórn Þóru Hilmarsdóttur hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar.

Margar íslenskar stuttmyndir og myndir í fullri lengd hafa að undanförnu átt góðu gengi að fagna og hlotið viðurkenningar á alþjóðlegum vettvangi. Frá áramótum hafa íslenskar stuttmyndir, sem frumsýndar voru á RIFF 2014, verið sýndar í Frakklandi, Færeyjum, Grænlandi og Slóveníu fyrir tilstilli RIFF og samstarfsaðila hátíðarinnar.

Allar frekari upplýsingar um innsendingu mynda má finna hér.

Á meðfylgjandi mynd má sjá stuttmyndina Sjö báta eftir Hlyn Pálmason, sem var frumsýnd á RIFF 2014, í skemmtilegu útibíói á kvikmyndahátíðina Kino Otok – Isola Cinema IFF í Slóveníu í júní.