Hryllilegt sundbíó

Kvikmyndahátíðin RIFF og Sundhöllin í Reykjavík sýndu Psycho í sundbíói

Kvikmyndin Psycho (1960) eftir Alfred Hitchcock, meistara hrollvekjunnar, var sýnd laugardagskvöldið 7. febrúar kl. 20 við ylvolga og grunna laug Sundhallarinnar.

Sundbíóið var haldið af kvikmyndahátíðinni RIFF í samstarfi við Sundhöll Reykjavíkur og var hluti af dagskrá Sundlauganætur á Vetrarhátíð í Reykjavík.

Sviðsmyndahönnuðurinn Hallveig Kristín Eiríksdóttir hannaði umgjörð í kringum sundbíóið í samstarfi við RIFF. Unnið var með vísanir úr myndinni og birtist útkoman í innsetningum, leik og ljósum. Blóðslettur voru í sturtu, leikarar fóru með hlutverk, uppstoppaðir fuglar voru í anddyri og hver gestur fékk lykil að „hótelherbergi“ í stað skáps áður en haldið var í búningsklefann.

Ljósmynd: Spessi