Thomas Bangalter til landsins

21-08-06 13:57;
Thomas Bangalter, annar meðlima hljómsveitarinnar Daft Punk, verður gestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík í haust. Hann mun svara spurningum áhorfenda við frumsýningu kvikmyndarinnar Electroma og einnig koma fram sem plötusnúður á NASA laugardagskvöldið 7. október.Franska hljómsveitin Daft Punk hefur verið ein vinsælasta danshljómsveit í heimi um nokkurra ára skeið. Hér nægir að nefna smelli á borð við „Around the World“, „Da Funk“, „One More Time“, „Harder, Better, Faster, Stronger“, „Digital Love“, „Technologic“, og „Robot Rock“. Myndbönd þeirra hafa líka vakið mikla athygli, en leikstjórar á borð við Spike Jonze og Michel Gondry hafa gert myndbönd við lög þeirra. Þá mynduðu myndböndin af plötunni Discovery samfellda teiknimynd í anime-stíl. Thomas Bangalter hefur einnig gert tónlist einn síns liðs, og lagið “Music Sounds Better With You” undir nafninu Stardust er líklega þekktast þeirra.

Meðlimir sveitarinnar, þeir Thomas Bangalter og Guy-Manuel de Homem-Christo, hafa nú gert mynd sem nefnist Electroma. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí við góðar undirtektir. Hún verður sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Thomas Bangalter verður viðstaddur frumsýningu myndarinnar hér á landi og svarar spurningum áhorfenda.

Electroma er nokkurskonar vegamynd og segir sögu tveggja vélmenna sem vilja verða mennsk. Myndin var tekin upp í Kaliforníu og inniheldur m.a. tónlist eftir Todd Rundgren, Brian Eno, Curtis Mayfield og Sebastian Tellier.

Eins og fyrr sagði, mun Bangalter einnig bregða sér í gervi plötusnúðs á NASA laugardagskvöldið 7. október. Bangalter hefur ekki komið fram sem plötusnúður í tæpan áratug og því ljóst að um stórviðburð er að ræða.

Smelltu hér til að sjá brot úr Electroma (QuickTime)