Þrettándu RIFF hátíðinni lokið

– Mikil aðsókn var á viðburði og uppselt á margar sýningar

Þrettándu RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, lauk í gær en hátíðin stóð yfir frá 29. september síðastliðnum.

Gert er ráð fyrir að yfir 20.000 manns hafi sótt sýningar, námskeið og fræðslu á vegum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF í ár, bæði í Reykjavík en einnig á landsbyggðinni svo sem Patreksfrirði og Reyðarfirði. Uppselt var á margar sýningar sem í ár fóru fram í Bíó Paradís, Háskólabíó og Norræna húsinu.

Mikill fjöldi erlendra gesta sótti hátíðina ennfremur heim í ár, þar á meðal sóttu hátt í 300 manns sérstaka Bransadagadagskrá RIFF þar sem kastljósinu var beint að íslenskri kvikmyndaframleiðslu og þeim möguleikum sem bjóðast hér á land í kvikmyndagerð. Farið var í fjölmenna ferð út á land þar sem tökustaðir voru skoðaðir og blaðamönnum, sölu- og dreifingaraðilum, framleiðendum og stjórnendum erlendra hátíða var boðið að kynna sér íslensk verk í vinnslu á sérstökum fundi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands að viðstöddum aðstandendum myndanna.

Dagskrá hátíðarinnar var fjölbreytt og venju samkvæmt voru margskonar sérviðburðir á dagskrá. Sem dæmi má nefna hið sívinsæla Sundbíó, Barna- og unglingahátíð RIFF sem og fjölda Q&A sýninga. Ríflega 1.500 grunnskólabörn í Reykjavík á aldrinum 6-15 ára sóttu RIFF heim í ár. Námskeið voru haldin fyrir börn í gerð stuttmynda, skólasýningar skipulagðar og námsefni kynnt fyrir kennurum. Myndirnar sem börnin horfðu á voru talsettar í rauntíma af leikurum og vakti það mikla lukku. Annað árið í röð skipulagði RIFF í samstarfi við Reykjavíkurborg stuttmyndanámskeiðið Stelpur filma!, auk þess sem afrakstur af námskeiðum grunnskólabarna í Garðabæ var sýndur.

Glæsilegir gestir settu svip sinn á hátíðina, en heiðursgestir voru leikstjórarnir Darren Aronofsky og Deepa Mehta. Þeim var báðum veitt heiðursverðlaun og stjórnuðu hvort sínu meistaraspjallinu sem bæði voru mjög vel sótt. Heiðursleikstjóri hátíðarinnar var Alejandro Jodorowsky sem gat því miður ekki verið viðstaddur hátíðina en sonur hans, Brontis Jodorowsky, kom til landsins og var með meistaraspjall. Hann hefur starfað náið við hlið föður síns og fer meðal annars með hlutverk í nýjustu mynd hans, Ljóð án enda, sem sýnd var á hátíðinni. Leikkonan, leikstjórinn og tísku íkonið Chloë Sevigny var einnig sérstaklur RIFF í ár en hún sýndi sína fyrstu mynd, stuttmyndina Kitty sem sýnd var í erlendum stuttmyndaflokki RIFF í ár. Sá flokkur var í fyrsta sinn keppnisflokkur í ár og bar myndin Heima í leikstjórn sigur úr býtum.

Fjölþjóðlega kvikmyndasmiðjan Reykjavík Talent Lab stóð yfir í fjóra daga á meðan á hátíðinni stóð og koma þátttakendur,um 40 talsins úr öllum áttum. Þátttakendur fá þar tækifæri til þess að senda inn stuttmyndir úr eigin smiðju sem keppa síðan um Gullna eggið. Pólland var í fókus í ár og voru fjöldi pólskra gesta viðstaddir og málþing haldið um stöðu pólskrar kvikmyndagerðar auk fleiri sérviðburða. Einnig var fjöldi pólskra kvik- og stuttmynda sýndar á RIFF í ár.

Þema RIFF í ár var Hvers konar friður og voru hugtökin friður og mannréttindi gegnumgangandi í vali á kvikmyndum á hátíðina í ár. Samstarf var við Höfða, Friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um málþing þar sem fjallað var um hvort kvikmyndir geti stuðlað að friði.

Það var myndin Guðleysi í leikstjórn Ralitza Petrova hreppti aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Myndin var hluti af keppnisflokknum Vitranir þar sem ellefu myndir kepptu um verðlaunin. Flokkinn skipuðu ellefu myndir sem eiga það sameiginlegt að vera fyrsta eða annað verk leikstjóra og ögra viðteknum gildum í kvikmyndagerð og vísa veg kvikmyndalistarinnar til framtíðar.

Að auki hlaut myndin Risinn í leikstjórn Johannes Nyholm úr flokknum Vitranir sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Myndin Eyjarnar og hvalirnir í leikstjórn Mike Day var sigurmynd flokksins Önnur framtíð og hlaut Umhverfisverðlaun hátíðarinnar. Myndin Ungar í leikstjórn Nönnu Kristínar Magnúsdóttur hlaut verðlaun sem besta íslenska stuttmyndin. Myndin Herra Gaga í leikstjórn Tomer Heyman hlaut áhorfendaverðlaun RIFF og kemur hún úr heimildamyndaflokki hátíðarinnar. Loks hlaut myndin Hertoginn í leikstjórn Max Barbakow Gullna eggið.

RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík þakkar gestum hátíðarinnar kærlega fyrir komuna í ár!