Ellefu spennandi og mikilvægar myndir

Stelpur frá Ghana sem vilja læra að fljúga, framtíð æxlunar mannsins og raunveruleg áhrif innflytjendastefnu Ástralíu

Bíó getur breytt heiminum

Í flokknum A Different Tomorrow – Önnur framtíð á RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík má finna ellefu spennandi og mikilvægar heimildarmyndir. Efnistök þeirra eru venju samkvæmt fjölbreytt og vekja upp spurningar um mikilvægi kvikmynda, hvernig þær geta breytt heiminum og gert okkur að betri manneskjum.

Sem dæmi má nefna myndina Sonita sem segir fylgir hinni 14 ára Sonitu eftir í þrjú ár. Sonita flúði frá Afganistan til Íran þar sem hún býr á heimili fyrir unglingsstúlkur. Í upphafi vinnur hún fyrir sér við ræstingar og fær menntun á heimilinu. Sonita rappar um upplifun sína af feðraveldi í Afganistan og notar textana til að tala fyrir rétti stúlkna og kvenna til að stýra eigin örlögum.

Í Chasing Asylum er varpað ljósi á raunveruleg áhrif innflytjendastefnu Ástralíu og rannsakað hvernig leiðtogar velja gæsluvarðhald fram yfir samkennd og hvernig ríkisstjórnin brýtur grundvallarmannréttindi. Myndin segir sögu af grimmilegri og ómannúðlegri meðferð Ástrala á hælisleitendum og flóttamönnum. Sagan rannsakar áhrif stefnunar á mannúð, pólitík, efnahag og siðfræði og ber hana saman við eldri innflytjendastefnu Ástralíu. Við sjáum áður hulin svæði flóttamannabúða, fjölskyldur sem eru læstar inni, aðbúnaðurinn er óþrifalegur og áhrifin á íbúana eru mjög skaðleg.

InnSæi – the Sea within eftir Kristínu Ólafsdóttur og Hrund Gunnsteinsdóttur verður einnig frumsýnd hér á landi. Myndin var heimsfrumsýnd í Berlín í byrjun júní og hefur vakið mikla lukku InnSæi – the Sea within fjallar um leit inn á við, vísindi, náttúru og sköpun. Myndin ferðast með áhorfandanum um heiminn í tilraun til að finna tengingu í heimi þar sem streita og áreiti ráða ríkjum.

 

Where to, Miss? (GER / IND) – Manuela Bastian
Devki er ung indversk kona sem langar að verða leigubílsstjóri. Hún á í stöðugri baráttu við þrána um að verða sjálfstæð og ríkjandi hefðir í indversku samfélagi. Myndin lýsir erfiðleikunum sem blasa við konum á Indlandi ef þær reyna að brjótast undan viðjum hefðanna. Sigurvegari á Granit Hof heimildamyndaverðlaununum 2015.

InnSæi – the Sea within  (ICE) – Kristín Ólafsdóttir / Hrund Gunnsteinsdóttir
InnSæi – the Sea within’ fjallar um leit inn á við, vísindi, náttúru og sköpun. Myndin ferðast með áhorfandanum um heiminn í tilraun til að finna tengingu í heimi þar sem streita og áreiti ráða ríkjum. Við hittum nafntogaða hugsuði, vísindamenn, listamenn og andlega leiðtoga með róttækar hugmyndir um hvernig við eigum að endurskilgreina hugsun okkar.


The Island and the Whales (GBR / DEN) – Mike Day
Að veiða hvali og sjófugla á sér mjög langa hefð í Færeyjum. Þegar uppgötvast að mengun í hafi hefur spillt dýraríkinu ógnar það lífsháttum Færeyinga til frambúðar. Þessi heimildamynd skoðar þær áskoranir sem mannfólkið þarf að sigrast á til að varðveita náttúruna. Vann til verðlauna á HotDocs og í San Francisco.

Sonita (IRI / GER / SUI) –  Rokhsareh Ghaemmaghami
Ef Sonita gæti valið væri Michael Jackson pabbi hennar og Rihanna móðir hennar. Hana dreymir um að verða frægur rappari en í bili eru aðdáendur hennar hinar unglingsstúlkurnar í skýli í Tehran. Sonita flúði yfirvofandi brúðkaup sitt, í dag er hún aktívisti gegn hjónaböndum barna. Sonita hlaut áhorfendaverðlaun á Kvikmyndahátíðinni í Amsterdam og á Sundance.

The Prison in Twelve Landscapes (CAN / USA) – Brett Story
Hugleiðing um hvarf fangelsa þegar fangar hafa aldrei verið fleiri. Við ferðumst milli venjulegra staða, þar sem fangar eru við störf og hafa áhrif. Þetta eru kvenfangar sem berjast við skógarelda í Kaliforníu, skákmenn á Manhattan og kolanámubær í Appalachia héraði sem byggir afkomu sína á starfskröftum fanga. Verðlaunuð á DOXA og HotDocs.

Kivalina (USA) – Gina Abatemarco
Kivalina er einlæg lýsing á lífsafkomu 210 km fyrir norðan norðurheimskautsbaug. Inupiaq, ættflokkur eskimóa, eitt af síðustu samfélögunum við norðurheimskautsbaug, búa á eyjunni Kivalina sem er við það að hverfa í hafið. Án úrræða til að flytjast á brott og einungis ótraustan sjógarð sér til verndar kannar myndin á ljóðrænan hátt baráttu til að lifa af í þessu landslagi og vistkerfi.

IN LIMBO (FRA) – Antoine Viviani
Ritgerð í heimildamyndaformi og heimspekileg saga. ‘Forgarðurinn’ er innra ferðalag í heim internetsins, eins og ekkert sé eftir annað en þetta alheimsnet. Rödd dularfulls anda vaknar upp í forgarði sameiginlegs minnis alheimsins og hittir draugalegt fólk. Erum við að byggja dómkirkju nýrrar siðmenningar eða stærsta kirkjugarð okkar tíma?

Girls Don’t Fly (AUT / GER) – Monika Grassl
Lydia, 18 ára, og Esther, 20 ára, eru nemar í fyrsta flugskólanum fyrir stúlkur í sveitum Ghana. Í þjálfuninni og daglega lífinu stangast á vestræn hugmyndafræði og afrísk gildi. Stelpurnar átta sig smám saman á því að draumi þeirra um að fljúga fylgir fórnarkostnaður. Myndin horfir gagnrýnum augum á svokallaðan „góðgerðariðnað“.

Future Baby (AUT) – Maria Arlamovsky
‘Barn framtíðarinnar’ er kvikmynd um framtíð æxlunar mannsins. Maria Arlamovsky ferðast um allan heim til að rannsaka viðfangsefnið. Hún hittir sjúklinga, rannsóknaraðila, egggjafa, staðgöngumæður og heimsækir rannsóknarstofur og heilsugæslustöðvar. Vonir og þrár verðandi foreldra blandast saman við rannsóknir á hvernig hægt sé að „bæta“ fósturvísa.

Command and Control (USA) – Robert Kenner
Árið 1980 fer af stað óhugnanleg atburðaráð í Titan II eldflaugaskýlinu í Arkansas. Rafmagnsinnstunga dettur og gatar eldsneytistank eldflaugar sem hefur stærsta kjarnaodd sem hefur verið byggður í Bandaríkjunum. Atburðirnir setja af stað spennuþrungnar tilraunir til að afstýra stórslysi. Myndin byggir á virtri bók eftir Eric Schlosser.

Chasing Asylum (AUS) –  Eva Orner
‘Hælisleit’ varpar ljósi á raunveruleg áhrif innflytjendastefnu Ástralíu og rannsakar hvernig leiðtogar velja gæsluvarðhald fram yfir samkennd og hvernig ríkisstjórnin brýtur grundvallarmannréttindi. Myndin sýnir hluta flóttamannabúða sem hafa aldrei sést áður og við fræðumst um geðrænar, líkamlegar og fjárhagslegar afleiðingar stefnunnar.

RIFF hefst þann 29. september næstkomandi og hátíðarpassa er hægt að nálgast hér.