Málþing – Kvikmyndaborgin Reykjavík

29-09-06 10:40;
Á undanförnum áratug hefur það færst í vöxt að erlendir kvikmyndagerðarmenn sæki Ísland heim og sviðsetji jafnt auglýsingar og stórmyndir í íslenskri náttúru. Minna hefur verið um að þeir nýti sér þau fjölmörgu tækifæri sem gefast í höfuðborginni Reykjavík. Innan borgarmarkanna er að finna fjölbreytt umhverfi sem getur nýst sem bakgrunnur í ólíkustu kvikmyndum. Þá er að finna í Reykjavík fagfólk sem stenst ítrustu kröfur í alþjóðlegri kvikmyndagerð og öll almenn þjónusta er til fyrirmyndar.

Reykjavíkurborg býður til málþings í samvinnu við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, þar sem ræddir verða opinskátt möguleikar borgarinnar sem alþjóðlegrar kvikmyndaborgar og reifaðar tillögur að framtíðarskipulagi, framkvæmdum og aukinni aðkomu stjórnvalda að því að gera Ísland enn fýsilegri kost fyrir kvikmyndaframleiðendur.

Björn Ingi Hrafnsson formaður borgarráðs mun setja málþingið.

Frummælendur verða Baltasar Kormákur, Jón Bjarni Guðmundsson – Sagafilm, Helga Margrét Reykdal – True North, Skúli Malmquist – Zik Zak og Laufey Guðjónsdóttir – Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Fundarstjóri verður Jakob Frímann Magnússon.

Málþingið fer fram í Tjarnarsalnum, Ráðhúsi Reykjavíkur, föstudaginn 29. september 2006, kl. 17:00.