Tvær myndir um Baskavígin á RIFF í ár

– vígin vinsælt umfjöllunarefni

Tvær kvikmyndir sem fjalla um Baskavígin verða sýndar í flokknum Ísland í brennidepli á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík í ár. Í báðum myndum er hinum sögulega og óhugnanlega viðburði í íslenskri sögu gerð skil, þegar hópur baskneskra sjó­manna var grimmilega myrtir hér á landi fyrir rétt rúmum fjögur hundruð árum síðan.

Myndirnar eru Killing of the Basque Whalers / Baskamorðin og The Slaying of the Basques / Baskavígin. Þó myndirnar fjalli báðar um hina þekktu atburði þá eru efnistök þeirra töluvert ólík en báðar myndirnar eru teknar að hluta til upp á Íslandi. Í Baskamorðunum er sögð saga hóps fornleifafræðinga sem ferðast hingað til lands í leit að vísbendingum sem gætu varpað ljósi á atburðina. Fyrir heimildarmyndina Baskavígin voru mörg sviðsett atriði tekin upp hér á landi og tekið upp á ellefu stöðum. Fimm íslenskir áhugaleikarar eru í hlutverkum í myndinni og um 120 íslenskum aukaleikurum bregður fyrir.

Þeir atburðir sem nefndir eru Baskavígin urðu árið 1615 á Vestfjörðum en þá réðst lið heimamanna undir stjórn sýslumanns gegn hópum spænskra skipsbrotsmanna og drápu alls 32 menn í tveimur tilvikum. Atburðir þessir gerðust annars vegar á Fjallaskaga í Dýrafirði og hins vegar á Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Það er augljóst að Baskavígin eru mögum hugleikin um þessar mundir því nú á dögunum var tilkynnt að RVK Studios, í eigu Baltasars Kormáks, hefðu nýverið gert samframleiðslusamning við tvö spænsk framleiðslufyrirtæki um gerð kvikmyndar sem byggir á vígunum. 

KILLING OF THE BASQUE WHALERS / BASKAMORÐIN
Eñaut Tolosa, Beñat Iturrioz ESP 2016 / 78 min
Í júní árið 1615 sigldu 86 Baskneskir hvalveiðimenn, með Martín de Villafranca, Pedro de Aguirre og Esteban de Tellería í fararbroddi, til hinnar köldu norðurstrandar Íslands þar sem þeir urðu hluti af stærsta fjöldamorði í sögu landsins. Þrjátíu og tveir baskneskir veiðimenn voru myrtir á hrottafenginn hátt. Af hverju? ‘Baskamorðin’ segir sögu hóps fornleifafræðinga sem ferðuðust til Íslands fjórum öldum síðar í leit að vísbendingum sem gætu varpað ljósi á málið.

Leikstjórinn Eñaut Tolosa fæddist í bænum Beasain í Baskalandi árið 1977. Hann þráði alla tíð að búa til kvikmyndir í bæ sem er þekktur fyrir að framleiða lestar. Hann flutti til Barcelona árið 1999 til að læra kvikmyndatöku í Escolas Superior de Cinema i Audiovisuals de Catalunya. Eftir að hafa unnið sem aðstoðarmaður í bransanum í nokkur ár gerðist hann handritshöfundur og leikstjóri. ‘Baskamorðin’ er fyrsta mynd hans í fullri lengd. Beñat Iturrioz er meðleikstjóri.

THE SLAYING OF THE BASQUES / BASKAVÍGIN
Aitor Aspe ESP /ICE 2016 70 min
Í júní árið 1615, beið íslenski fræðimaðurinn Jón Lærði Guðmundsson, enn eitt árið eftir komu basneskra vina sinna að ströndum Íslands. Vinir Jóns sem voru 86 baskneskir hvalveiðimenn, urðu fórnarlömb í einu stærsta fjöldamorði Íslandsögunnar. Fjögur hunduð árum eftir þennan atburð er loksins kominn tími til að draga söguna fram í dagsljósið og segja hana. Sögumaðurinn er sjálfur Jón Lærði, maðurinn sem fordæmdi grimmdarverkin opinberlega. Fordæmingin varð Jóni dýrkeypt þar sem hann var í kjölfar hennar ákærður og gerður útlægur allt til dauðadags.

Aitor Aspe er leikstjóri ýmissa sjón- og hljóðrænna verkefna, klippari, brellutæknir og margmiðlunarhönnuður. Hann byrjaði að gera stuttmyndir þegar hann var fimmtán ára gamall. Aspe er þekktur fyrir stuttmyndirnar La Visita (2008), Last Smile (2008), Vecinos (2009) og Mi Lucha (2011). Baskavígin eru hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Stuttmyndin Mi Lucha hlaut verðlaunin Golden Danzante á kvikmyndahátíðinni í Huesca á Spáni.