Umdeild Sumarhöll

11-09-06 14:32
Það var sagt frá því í síðustu viku að Lou Ye, leikstjóri myndarinnar Summer Palace, hafi lent í útistöðum við kínversk yfirvöld og þau hafi m.a. meinað honum að gera mynd næstu fimm árin. Talið er að tvennt hafi orðið til þessa: andkommúnískur boðskapur í myndinni og opinská kynlífsatriði.Nú er það ljóst að Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík mun sýna Summer Palace á hátíðinni.

Sumarhöllin segir af Yu Hong sem fer til náms í Peking árið 1989. Í háskólanum kynnist hún frjálsum ástum og forboðnum nautnum og á í ákáfu ástarsambandi við samstúdent sinn, Zhou Wei. Vegna þráhyggjufullrar ástríðu þeirra einkennist sambandið af svikum, ásökunum og ögrunum. Á sama tíma er barátta stúdenta fyrir mannréttindum að breytast í pólitískar óeirðir. Þegar mótmælin eru brotin á bak aftur skiljast Yu og Zhou að í öngþveitinu og Zhou er sendur í herbúðir. Að lokinni dvölinni þar flýr hann til Berlínar þar sem hann finnur fyrir þjóðfélagslega ókyrrð líkt og fyrr í heimalandinu, þar sem krafan er frelsi og lýðræði. Minning um Yu sækir fast að Zhou og við fall Berlínarmúrsins snýr hann aftur til Kína, staðráðinn að finna ástina á ný.