Umræða um danska kvikmyndagerð (myndband)

Allt síðan fyrsta danska myndefnið var skotið árið 1897 hafa Danir sent frá sér hverja gæðamyndina á fætur annarri og orðið með tímanum einhver þekktasta og dáðasta kvikmyndaþjóð heims. Frá verkum Carls Theodors Dreyers á þriðja áratugnum til hrakfallabálkanna í Ólsenbandinu á þeim áttunda, frá Gullpálma Bille August til Óskars Gabriels Axels á níunda áratugnum, frá dogma byltingu tíunda áratugarins til alþjóðlegrar velgengni kvikmyndahöfunda á borð við Susanne Bier, Lars von Trier, Thomas Vinterberg, Lone Scherfig og Nicholas Winding Refn á 21. öldinni.

 

Danskir kvikmyndagerðarmenn hafa ekkert slakað á heldur dæla áfram út snjöllum og vinsælum verkum sem hafa sópað til sín verðlaunum um allan heim. Sérstakur fókus er á danska kvikmyndagerð á RIFF í ár þar sem boðið er upp á úrval danskra mynda.

Eins var boðið uppá umræður þar sem rætt var um danskt kvikmyndaumhverfi þar sem einkaaðilar og opinberar stofnanir starfa saman að því að gera frábært efni fyrir sjónvarp og kvikmyndir.

Stjórnandi umræðunnar var danska leikkonan Charlotte Böving, sem hefur búið á Íslandi um árabil.

Þátttakendur: Jesper Morthorst, framleiðandi Silent Heart, Mikkel Jersin framleiðandi Þrasta og Rúnar Rúnarsson, leikstjóri Þrasta.

Hér er hægt að horfa á umræðurnar í fullri lengd: