Útibíó á menningarnótt

09-08-06 15:08
Á menningarnótt, 19. ágúst verður þremur íslenskum stuttmyndum varpað á Héraðsdóm Reykjavíkur við Lækjartorg frá klukkan 22:00 til miðnættis.Hér er á ferðinni einstakt tækifæri til þess að sjá íslenskar stuttmyndir á heimsmælikvarða, en engin þessara mynda hefur verið sýnd í íslensku sjónvarpi né í almennum bíósýningum.

Um er að ræða eftirfarandi stuttmyndir:

Töframaðurinn eftir Reyni Lyngdal
Slavek the Shit eftir Grím Hákonarson
Goodbye, Cruel World eftir Vito Rocco

Töframaðurinn hlaut glimrandi dóma hér á landi þegar hún var sýnd síðasta vor. „Töframaðurinn fjallar um gamalkunna draumaveröld barna, þangað sem þau flýja ef þau eiga ekki annarra kosta völ til að yfirstíga vandamál hversdagsins“ og er „sláandi innsýn í dapurlegt líf þar sem söguhetjan verður að grípa til flóttameðala til að þrauka“ segir í umsögn Sæbjörns Valdimarssonar um myndina.

Slavek the Shit gerði Grímur Hákonarson í námi sínu í kvikmyndaskólanum FAMU í Prag. Myndin fjallar um almenningsklósettvörðinn Slavek og breytinguna sem verður á lífi hans þegar ný kona tekur við klósettvörslu á kvennaklósettinu. Umfjöllunarefnið kann að virðast fráhrindandi við fyrstu sýn en hér er á ferðinni afskaplega falleg, fyndin, og skemmtileg mynd sem segir margt með fáum orðum.

Goodbye, Cruel World hefur aldrei komið fyrir sjónir Íslendinga áður, en hún er eftir hálf-íslenska Lundúnabúann og kvikmyndagerðarmanninn Vito Rocco. Myndin segir frá ungum dreng sem tekst á við dauða besta vinar síns, gamalmennisins Herra Carter, með óvenjulegum og skemmtilegum hætti. Myndin hlaut aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Pifan í Kóreu, Emden í Þýskalandi, og á Kodak/BAFTA hátíðinni í London, auk þess sem hún hefur verið tilnefnd til verðlauna á fjölda annarra hátíða.