Verðlaunaafhending RIFF á laugardag

– Meirihluti leikstjóra sem keppa um Gullna lundann í ár konur

Verðlaunaafhending Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF, fer fram á laugardagskvöld og verða veitt sex verðlaun í ár. Í flokknum Vitranir tefla ellefu nýir leikstjórar fram sinni fyrstu eða annarri mynd í fullri lengd og keppa um aðalverðlaun RIFF, Gullna lundann . Í dómnefndinni í ár sitja Jonas Holmberg, listrænn stjórnandi kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg, Grímur Hákonarson leikstjóri og Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur. Þá verða verða umhverfis- og mannréttindaverðlaun RIFF veitt fyrir bestu myndina í flokknum Önnur framtíðog sitja Brian D. Johnson, formaður samtaka kvikmyndagagnrýnenda í Toronto, Lilja Snorradóttir framleiðandi og Þóra Tómasdóttir ritstjóri í dómnefndinni. Þrenn stuttmyndaverðlaun verða veitt, fyrir bestu íslensku stuttmyndina, bestu erlendu stuttmyndina og Gullna eggið kemur í hlut bestu myndarinnar á Talent Lab . RÚV kaupir sýningarrétt að bestu íslensku stuttmyndinni fyrir 500.000 kr, auk þess sem hún hlýtur viðurkenningu til minningar um Thor Vilhjálmsson. Í dómnefnd stutmynda sitja Þóranna Sigurðardóttir kvikmyndagerðarmaður, Kate Hide hjá Hanway Films í London og Ragnar Hansson leikstjóri. Þá verða áhorfendaverðlaun RIFF og mbl.is veitt í kvöld, fyrir bestu myndina í flokki heimildamynda og flokknum Fyrir opnu hafi .

Athygli vekur að í flokknum Vitranir  í ár eru ellefu leikstjórar af sex kvenkyns. RIFF lagði í fyrra sérstaka áherslu á verk kvenna og um konur, og hlutföllin því sérstaklega ánægjuleg. Myndirnar í flokkunum hafa þegar hlotið ýmis verðlaun víða um heim. Sérstaklega má nefna Risann ( The Giant ) í leikstjórn Johannes Nyholm og Garð ( Park ) í leikstjórn Sofia Exarchou en báðar myndirnar unnu nýverið til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í San Sebastian. Garður hlaut þar New Directors-verðlaunin, sem íslenska kvikmyndinHross í oss hlaut árið 2013.