Yoko Ono á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík

21-09-06 12:29
Yoko Ono kynnir myndina Bandaríkin gegn John Lennon þann 8. október. Ono mun einnig kynna stuttmyndina Onochord sem verður sýnd á undan Bandaríkjunum gegn John Lennon sama dag.Bandaríkin gegn John Lennon segir sanna sögu þess hvernig ríkisstjórn Bandaríkjanna reyndi hvað hún gat til þess að þagga niður í John Lennon, sem var ekki einungis ástsæll tónlistarmaður heldur einnig táknrænn boðberi friðar. Myndin inniheldur ítarleg viðtöl við þá sem þekktu hann best og sýnir líf og samtíma Lennons, hugmyndirnar sem hann barðist fyrir og gjaldið sem hann þurfti að greiða að lokum fyrir tilraunir sínar til að bæta heiminn. Enn fremur sýnir myndin fram á að dæmi Lennons er síður en svo einangrað í bandarískri sögu.

Myndin er gerð með fullum stuðningi Yoko Ono, en hún verður viðstödd sýninguna. StuttmyndinOnochord (2004) verður sýnd á undan Bandaríkjunum gegn John Lennon þann 8. október.Onochord er heimildarmynd um gagnvirkt listaverk Yoko Ono sem hún ræðir stuttlega áður en hún kynnir Bandaríkin gegn John Lennon fyrir viðstöddum.