Zidane á hátíðinni í haust

03-08-06 16:30
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík mun sýna kvikmyndina Zidane, un portrait du 21e siècle á hátínni í haust. Myndin sýnir franska knattspyrnumanninn Zinedine Zidane leika heilan leik með liði sínu Real Madrid gegn Villareal í apríl 2005. Myndin var tekin upp með fjölda samstilltra myndavéla og samanstendur nær eingöngu af skotum af Zidane og fimi hans með boltann.Eins og flestir vita eflaust var Zidane var kjörinn besti leikmaður í heimi á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í fótbolta. Í úrslitaleik mótsins stimplaði hann sig endanlega inn í fótboltasöguna þegar hann skallaði Ítalann Marco Materazzi og fékk rauða spjaldið að launum. Mörgum Frökkum þótti þjóðhetjan hafa brugðist sér, aðrir vildu svipta hann titlinum og enn aðrir sögðu hann hafa brugðist rétt við miðað við ætlaðar móðganir Materazzi.

Hvað sem því líður er Zidane einn besti núlifandi knattspyrnumaður heims og hæfileikum hans eru gerð ítarleg skil í kvikmyndinni Zidane, þar sem fimin og einbeitnin sem er nauðsynleg í 90 mínútna knattspyrnuleik er sýnd í listrænu ljósi. Myndin er hvoru tveggja í senn; heimildarmynd og listræn sýn á fótboltann, og ætti því að vera áhugaverð fyrir bæði fótboltaunnendur og hina sem ekki þola íþróttir.