Aðgengisstefna RIFF

Aðgengisstefna Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík – RIFF, miðar að því að tryggja að allir einstaklingar, óháð fötlun, geti tekið þátt í viðburðum og sýningum hátíðarinnar. Þetta felur í sér bætt aðgengi að byggingum og þeim viðburðum sem þar fara fram, auk þess að stuðla að inngildingu og gera viðeigandi ráðstafanir til að koma til móts við sem fjölbreyttastan hóp.

Innleiðing aðgengisstefnu RIFF fer fram í skrefum, hverra stærð og fjöldi tekur mið af stærð starfseminnar og fjármagni hverju sinni. Árið 2024 miðar hátíðin að því að tryggja fullt aðgengi fyrir alla hreyfihamlaða hátíðargesti og bæta aðgengi að upplýsingum með auðlesnu efni á vef og í hátíðarbækling. Markviss vinna með sérfræðingum og hagsmunasamtökum hófst 2024 og staða aðgengisfulltrúa hefur verið stofnuð.

Hátíðin miðar að því að halda áfram að þróa og bæta aðgengið, breikka þjónustuhópinn og vinna að stærra markmiði, að allir sem vilji geti notið sýninga á RIFF, óháð fötlun. Jafnframt, að sértæk úrræði á vegum hátíðarinnar mæti þeim hópum sem þess þurfa.

Lykilhugtök

Aðgengi: Að tryggja að þeir sem þurfa geti sótt sýningar og viðburði, þar með talið aðgengi að byggingum og viðburðinum sjálfum, og gera viðeigandi aðlögun.

Inngilding: Leitast við að fatlaðir einstaklingar geti tekið þátt í viðburðum eftir getu og áhuga, og taka þeirra sjónarmið inn í framkvæmd viðburða.

Viðeigandi aðlögun: Aðlaga aðstæður þannig að sem flestir geti tekið þátt, til dæmis með því að breyta umhverfi til að stuðla að inngildingu.

 

 

RIFF 2024   – Bætt aðgengi fyrir hreyfihamlaða gesti

Árið 2024 gerir RIFF ráðstafanir til að tryggja aðgengi fyrir notendur hjólastóla og einstaklinga með hreyfihamlanir. Þetta felur í sér:

  1.  Að tryggja að hjólastólanotendur og fólk með hreyfihamlanir geti sótt sýningar og viðburði á þægilegan hátt og að gert sé ráð fyrir aðgengi á öllum viðburðum og sýningum RIFF. Sömuleiðis, að upplýsingagjöf og þjónusta sé í boði á öllum sýningum. 
  2.  Stöðu aðgengisfulltrúa RIFF sem er tengiliður fyrir einstaklinga og hagsmunasamtök fatlaðra.
  3.  Að veita aðstoðarfólki fatlaðra ókeypis aðgang að viðburðum.
  4.  Fræðslu fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða á vegum RIFF.

Árið 2024 mun RIFF framkvæma ráðstafanir sem mæta þörfum ákveðinna hópa með kynningarefni á auðlesnu máli. Þetta felur í sér:

  1. Vefsvæði á vef hátíðarinnar riff.is þar sem upplýsingar um dagskrá og sérviðburði má finna á auðlesnu máli.
  2. Framsetningu á aðgengisstefnu RIFF á auðlesnu máli á vefsvæði RIFF.

Þátttaka í UngRIFF

RIFF stuðlar að inngildingu og viðeigandi aðlögun fyrir fatlaða gesti barnakvikmyndahátíðarinnar UngRIFF. Hátíðin skuldbindur sig til að ræða við sérfræðinga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks við þróunarvinnu og framkvæmd UngRIFF.

Fræðsla fyrir starfsfólk

RIFF mun bjóða upp á fræðslu fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða um þarfir mismunandi hópa, sem veitt er af samtökum eins Sjálfsbjörg og Þroskahjálp. Aðgengisfulltrúi verður til taks til að endurskoða stefnuna reglulega. Hátíðin leitast við að ráða starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn og kanna möguleika á ráðningar og nýsköpunarstyrkjum í samstarfi við stofnanir eins og Vinnumálastofnun.

Framtíðaráætlanir – RIFF fyrir alla

RIFF skuldbindur sig til að sinna þróunar og hugmyndavinnu þar sem aðgengi skal aukið ár frá ári. RIFF hyggst þannig stöðugt bæta aðgengi að hátíðinni undir formerkjunum: RIFF fyrir alla. Þetta felur í sér áform um sérsýningar á komandi árum, til að bjóða upp á textun, tónmöskva og sérstakar sýningar fyrir einstaklinga á einhverfurófi eða með skynúrvinnsluvanda. Hátíðin stefnir að því að mæta þörfum heyrnarskertra áhorfenda með táknmálstúlkun, rittúlkun og öðrum úrræðum. RIFF óskar eftir samvinnu ríkis og sveitarfélaga og sjóða sem styðja við einstaklinga með sérþarfir, til þess að draumur um RIFF fyrir alla megi verða að veruleika.