Allar myndirnar komnar til Íslands!

Ferðalag kvikmyndanna sem sýndar eru á RIFF á ári hverju er óþekkt mörgum þeim gestum sem sækja hátíðina en flestar þeirra ferðast víðsvegar um heiminn, hátíða á milli, fyrir og eftir að þær koma við á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.

Þannig er að framleiðandi eða annar aðstandandi kvikmyndarinnar býr til nokkur eintök af svokölluðum DCP (Digital Cinema Package) pökkum sem fara svo á flakk um heiminn. Á RIFF er það einn helsti samstarfsaðila hátíðarinnar, TVG-Zimsen, sem gerir okkur kleift að sjá myndirnar í Háskólabíó, Norræna húsinu og víðar en þau sjá um flutninga á myndunum til Íslands.

TVG-Zimsen tekur þannig við myndinni af framleiðanda, dreifingaraðila eða öðrum hátíðum og flytur til Íslands, þar sem RIFF teymið tekur við þeim, yfirfer og athugar að allt sé í lagi. Ef svo er, er pakkinn sendur í kvikmyndahúsið þar sem tæknimaðurinn athugar hvort allt virki sem skildi. Oftar en ekki fer myndin svo aftur í pakka og er þá komið áfram á næsta áfangastað en afrit verða eftir á Íslandi sem gestir RIFF fá að njóta á meðan á hátíð stendur.

The Other Side of the Wall

Sem dæmi má nefna að The Other Side of the Wall kom til okkar frá Doc House London hátíðinni og er þegar farin áfram til kvikmyndahátíðarinnar í Zurich og Gabriel and the Mountain kom frá alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Bergen og fór til kvikmyndahátíðarinnar í Varsjá. School Life kom svo alla leið frá Suður Kóreu og Atlantis frá Ástralíu en þessar tvær myndir fóru líklega í lengsta ferðalagið til Íslands.

Síðasti DCP pakkinn á RIFF í ár kom til landsins í gær frá Belgíu og nú er því allt klárt fyrir RIFF 2017! Við þökkum TVG-Zimsen kærlega fyrir samstarfið og hvetjum alla til að kíkja í bíó!